Fréttasafn  • Aðalfundur SÍL 2011

9. nóv. 2011

Spennandi verkefni og miklir vaxtamöguleikar hjá líftæknifyrirtækjum

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja, SÍL, hélt aðalfund sinn í liðinni viku. Fundurinn var haldin í húsakynnum Matís. Fyrirtækin Matís, Kerecis, DIS og Prokazyme kynntu starfsemi sína, en þau eru öll með aðstöðu í húsinu. Spennandi verkefni og miklir vaxtamöguleikar virðast vera hjá fyrirtækjunum.

Á fundinum var farið yfir starf liðins árs en samtökin koma víða við í sínum störfum. Meðal fastra verkefna undanfarin ár hefur verið þátttaka í samstarfsverkefnum á vegum Hátækni- og sprotavettvangs. Þar hefur verið unnið að framgangi margra góðra mála og hefur vettvangurinn reynst mikilvægur til að tengja saman aðila innan og utan stjórnsýslunnar. Samtökin hafa einnig verið í samstarfi við AVS-rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi varðandi líftæknihóp AVS. Samtökin fylgjast með laga- og reglugerðarsetningu og hafa sent inn umsagnir um lagafrumvörp sem varða hagsmuni líftæknifyrirtækja og komið sjónarmiðum líftækniiðnaðar á framfæri þar sem þess er þörf. Á liðnum vetri var héldu samtökin ráðstefnu um erfðatækni, notagildi og möguleika til atvinnusköpunar. Ráðstefnan var vel sótt og rætt var um ólíkar hliðar á nýtingu tækninnar, kosti hennar og galla.

Stjórn samtakanna er þannig skipuð að Jóhannes Gíslason hjá Genís, situr áfram sem formaður og meðstjórnendur eru Ása Brynjólfsdóttir hjá Bláa Lóninu heilsuvörum og Hörður G. Kristinsson hjá Matís.