Fréttasafn



  • Sameining SART og SI

18. nóv. 2011

SART og SI sameinast

Í dag var staðfestur samningur um sameiningu SART, Samtaka rafverktaka og SI, Samtaka iðnaðarins. Helgi Magnússon, formaður SI og Jens Pétur Jóhannsson, formaður SART skrifuðu undir samninginn á skrifstofu SI síðdegis í dag.

Sameiningin mun efla alla starfsemi SART en Ásbjörn Jóhannesson, framkvæmdastjóri SART verður starfsmaður SI og veitir forstöðu starfi fyrir félaga innan SART auk þess að taka þátt í starfi fyrir félög tengd byggingariðnaði.

SART var áður eitt átta aðildarfélaga SA, Samtaka atvinnulífsins en við sameininguna fækkar þeim í sjö.

Ástæður sameiningarinnar eru fyrst og fremst faglegar. Íslensk fyrirtæki þurfa að takast á við sífellt örari breytingar á starfsumhverfi sínu. Þörfin fyrir traustan bakhjarl er því brýn. Með sameiningunni er lagður grunnur að enn sterkari samtökum sem gæta hagsmuna íslensks iðnaðar.

Fleiri breytinga er að vænta á næstunni þegar frekari sameiningar verða í röðum hagsmunafélaga iðnaðarmanna sem sjá hagræði í því að vera sameinaðir á einum stað.

Með sameiningu SART við SI fjölgar félagsmönnum SI um 20%.