Meistarafélag húsasmiða gengur til liðs við Samtök iðnaðarins
Í dag var undirritaður samningur um aðild Meistarafélags húsasmiða að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Helgi Magnússon, formaður SI, Grímur Sæmundsen, varaformaður SA og Baldur Þór Baldvinsson, formaður MH skrifuðu undir samninginn.
„Þetta er merkilegur áfangi fyrir byggingariðnaðinn í landinu“ segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI. Í sama streng tekur Baldur Þór, formaður MH sem væntir mikils af auknum samtakamætti og slagkrafti sameinaðra samtaka.
Félgsmenn MH eru 120 húsasmiðameistarar og fyrirtæki þeirra.
Ástæður sameiningarinnar eru fyrst og fremst faglegar. Aðstæður á byggingarmarkaði eftir efnahagshrun gera þörfina fyrir öflug heildasamtök enn brýnni en áður. Með breytingunni er lagður grunnur að enn sterkari samtökum sem gæta hagsmuna íslensks byggingariðnaðar, en eftir inngöngu MH starfa nær öll samtök atvinnurekenda í byggingariðnaði sameinuð undir merkjum Samtaka iðnaðarins.
Eftir sameiningu MH við SI eru félagsmenn SI orðnir um 1200 talsins.