Fréttasafn  • Kyr_a_beit

28. nóv. 2011

SMK vill að aðildarumsókn og viðræður við ESB verði lagðar til hliðar

Aðalfundur Samtaka mjólkur- kjötvinnslufyrirtækja, SMK, var haldinn 23. nóvember 2011. Samtökin sem starfa innan Samtaka iðnaðarins eru nú eins árs.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum: 

Aðalfundur SMK, haldinn 23. nóvember 2011,  telur að Samtök atvinnulífsins hafi skaðast af því að á fundi stjórnar SA var knúin í gegn með atbeina minni hluta stjórnarmanna ályktun um að stjórnvöld haldi til streitu samningaviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þessi skoðun SMK er grundvölluð á fjórum meginástæðum:

1.    Mjög deildar meiningar eru um aðildarviðræður að Evrópusambandinu innan Samtaka atvinnulífsins.

2.    Deildar meiningar eru um hvort stjórnvöld fari í raun fram í þessu máli í samræmi við þingsályktunartillöguna um aðildarviðræðurnar sem samþykkt var með naumum meirihluta sumarið 2009.

3.    Það er augljóst af yfirlýsingum stækkunarstjóra Evrópusambandsins, Stefan Fuhle, sem var hér á ferð í haust, að svokallað samningaferli, sem stjórnvöld taka nú þátt í með embættismönnum Evrópusambandsins, miðar fyrst og fremst að því að laga íslenska löggjöf og stefnu að regluverki sambandsins og að litið er á mögulegar undanþágur sem tímabundnar og takmarkaðar ráðstafanir.

4.    Evrópusambandið er um þessar mundir í fullkomnu uppnámi vegna grundvallargalla í uppbyggingu og umgjörð gjaldmiðilsins evrunnar sem 17 af 27 ES ríkjum nota. Í þeim hrunadansi hafa stærstu ríkin í raun tekið sjálfsákvörðunarrétt af hinum smærri og tekið úr sambandi möguleika íbúa til að segja sína skoðun á framvindunni með lýðræðislegum hætti. Allt bendir til að í burðarliðnum sé Evrópusamband í nýju formi og gerð og allt annars eðlis en það samband sem íslensk stjórnvöld töldu sig ganga til viðræðna við.

Við þessar kringumstæður telur aðalfundur SMK  eðlilegast að Íslendingar leggi aðildarumsókn og viðræður til hliðar.

Stjórn samtakanna var endurkjörin til eins árs. Formaður stjórnar er Guðni Ágústsson, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Aðrir í stjórn eru Einar Sigurðsson, Mjólkursamsölunni, Gunnar Þór Gíslason, Síld og fiski, Magnús Freyr Jónsson, Sláturhúsi KVH og Sigurður Jóhannesson, SAH afurðum. Varamenn eru Karl Ómar Jónsson, Esju Gæðafæði og Steinþór Skúlason, Sláturfélagi Suðurlands.