Fréttasafn  • Vinnuvélar

1. des. 2011

Lýsing tapar í héraðsdómi - fjármögnunarleigusamningar enn einu sinni dæmdir ólöglegir

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar væru í raun lánasamningar og því væri gengistrygging þeirra ólögleg. Þetta er þriðji samhljóða dómurinn um ólögmæti lánasamninga í erlendri mynt, dulbúna sem leigusamninga.

Samtök iðnaðarins krefjast þess að fyrirtæki á fjármálamarkaði virði niðurstöður dómstóla og leiðrétti þegar í stað þúsundir ólöglega lánasamninga.

Talið er að fjármögnunarleigur hafi gert ólöglega lánasamninga við 2.500 fyrirtæki. Heildarsamningsfjárhæð er óþekkt en leiðréttingar í kjölfar þessara dómsmála hlaupa engu að síður á milljörðum króna. Alls er talið að dómurinn í dag og fyrri samhljóða dómar taki til 10 til 15 þúsund samninga sem nú hafa verið dæmdir ólöglegir. Við málflutning í héraði kom Lýsing ekki með nein ný rök eða málsástæður umfram það sem þegar hefur komið fram í fyrri dómsmálum, sem styður grun margra að tilgangur málaferlanna sé einkum að draga uppgjör og leiðréttingar við viðskiptavini á langinn.

Samtök iðnaðarins hafa vakið athygli Fjármálaeftirlitsins á alvarleika málsins og þeirri hegðun Lýsingar og Landsbankans að þverskallast við að leiðrétta samningana þrátt fyrir niðurstöður dómsstóla. Að gengnum þessum síðasta dómi hlýtur FME að taka til sinna ráða nema fjármögnunarleigurnar hefjist þegar í stað handa við að leiðrétta samninga sína.

„Þessi dómur kemur okkur hjá Samtökum iðnaðarins ekki á óvart. Þetta er þriðji samhljóða dómurinn sem kveðinn hefur verið upp gagnvart kaup- og fjármögnunarleigusamningum. Í öllu tilvikum hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að þessir leigusamningar hafi í raun verið dulbúnir lánasamningar í erlendri mynt og því dæmdir ólöglegir. Kaupleigufyrirtækjunum ber því að endurreikna þá án frekari tafa. Engin ný rök, gögn eða málsástæður voru lögð fram í þessu síðasta dómsmáli sem eitt og sér ber með sér að það sé einungis til þess fallið að tefja réttmætar leiðréttingar“ segir Árni Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs SI. „Dómurinn hefur áhrif á viðgang 2.500 fyrirtækja í alls kyns atvinnugreinum. Samningar af þessu tagi er algengir í landbúnaði, fiskvinnslu, framleiðsluiðnaði, verktöku og svo má lengi telja.“ segir Árni.

Hér má lesa dóminn í heild.