Fréttasafn  • Raforka

1. des. 2011

Raforkuhækkanir koma illa við stærri iðnfyrirtæki

Hækkanir á ótryggðri orku sem boðaðar eru nú um áramót koma illa við mörg stærri iðnfyrirtæki. Það kemur á óvart hve mikil hækkunin er, en rekstur fyrirtækjanna er þungur og því kemur svona sending sér afar illa.

Raforkuverð er eitt af því fáa sem er íslenskri framleiðslu í hag um þessar mundir í samanburði við nágrannalönd. Miklar hækkanir á raforkuverði veikja stöðu stærri iðnfyrirtækja og koma illa við áform um uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi. Þær vinna einnig gegn markmiðum um minni losun gróðurhúsalofttegunda því dæmi er um fyrirtæki sem nýlega hefur fjárfest í búnaði til að nýta raforku í stað olíu en nú stefnir í að það verði hagstæðara að hverfa aftur til olíunotkunar.

Með því að hækka taxta er skilmálum auk þess breytt og meiri krafa er gerð um upplýsingagjöf um notkun. Notendum er gert að áætla notkun til ákveðins tíma og ef farið er út fyrir viss mörk leggst á viðbótargjald. Þetta er nýmæli fyrir flesta og kallar á ný vinnubrögð en breytingin tekur gildi um áramót og lítill tími gefinn. Nokkur mismunur virðist vera á því hvaða kjör eru í boði en verðhækkunin er kynnt með skömmum fyrirvara og varla er svigrúm til að leita tilboða og kanna hvaða kostir eru í boði.

Samtök iðnaðarins gagnrýna vinnubrögð orkufyrirtækja, hve lítið samráð hefur verið um framkvæmdina og hve skammur fyrirvari er gefinn til aðlögunar. SI munu óska eftir viðræðum við orkufyrirtækin vegna þessa.