Fréttasafn  • Borgartún 35

7. des. 2011

Óbreyttir vextir

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í dag að halda vöxtum bankans óbreyttum. Bjarni Már Gylfason hagfræðingur SI segir að þessi ákvörðun bankans komi ekki á óvart í ljósi fyrri yfirlýsinga og verðbólguþróunar undanfarið.

„Hagþróun síðustu mánuði, einkum verðbólguþróun, er í takti við spár bankans og því er þetta eðlileg ákvörðun bankans. Ég deili hins vegar ekki sýn bankans á þróun mála á næstunni. Ég hef talsverðar áhyggjur af því hvaða vegferð peningastefnunefnd er á en ljóst er að nokkur efnahagsbati er að eiga sér stað, þó sá bati sé brothættur og að mestu byggður á einkaneyslu, og að verðbólga er á niðurleið. Á sama tíma er talað um nauðsyn þess að huga að minnkandi slaka í peningastefnunni sem þýðir einfaldlega hækkun vaxta. Þrátt fyrir bata í hagkerfinu er mikill slaki enn og hátt atvinnuleysi. Fjárfesting er vissulega vaxandi en ennþá alltof lág. Ytri aðstæður eru óljósar um þessar mundir og líkur til að hagþróun í viðskiptalöndunum verði okkur óhagstæð. Ég tel þessar aðstæður kalla á lága vexti til að styðja við efnahagsbatann“, segir Bjarni Már.