Yfirlýsing frá ORF Líftækni vegna tjóns á gróðurhúsi Barra á Egilsstöðum
Ekki möguleiki á umhverfismengun
Bygg hefur verið ræktað á Íslandi frá landnámi og yfir þúsund ára reynsla sýnir að það getur ekki vaxið villt hér landi. Það vex aðeins við albestu aðstæður sem skapaðar eru sérstaklega fyrir það á akri. Auk þess getur bygg getur ekki æxlast við neina íslenska plöntu við náttúrulegar aðstæður. Umfangsmiklar rannsóknir vísindamanna við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa sýnt fram á líffræðilega einangrun byggs á Íslandi. Það er þess vegna fjarstæðukennt að halda því fram að tjónið sem varð á gróðurhúsi Barra hefði á einhvern hátt getað valdið umhverfismengun eða heilsufarsáhættu.
Hópur sem lengi hefur haldið uppi hræðsluáróðri gegn erfðatækni hefur sett fram kröfu að starfsleyfi ORF Líftækni til ræktunar á erfðabreyttu byggi í gróðurhúsi Barra á Egilsstöðum verði afturkallað. Það er fráleit krafa sem ekki er byggð á neinum vísindalegum rökum.
ORF Líftækni hefur ræktað bygg í gróðurhúsi Barra á Egilsstöðum samkvæmt samkomulagi á milli fyrirtækjanna frá árinu 2011. Ræktunin í gróðurhúsi Barra er mikilvægur liður í áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins á sjálfbærum grænum iðnaði á Íslandi. Starfsleyfi ORF Líftækni fyrir ræktun í gróðurhúsi Barra var veitt samkvæmt íslenskum lögum og reglum eftir vandaða málsmeðferð Umhverfisstofnunar, og var m.a. byggt á áliti sérfræðinga í Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur.
Vindhraðinn í óveðrinu sem reið yfir þennan dag var meiri en nokkurn tíma áður hefur mælst á þessum stað og tjón á gróðurhúsi Barra er umtalsvert. Framkvæmdastjóri Barra hefur lýst því yfir að ráðist verði í aðgerðir til að styrkja húsið svo það þoli ofsaveður.