Fréttasafn



  • salt

16. jan. 2012

Iðnaðarsalt notað í matvæli

Komið hefur í ljós að fjöldi matvælafyrirtækja hefur keypt iðnaðarsalt og notað í matvæli án þess að gera sér grein fyrir að það er ekki ætlað til matvælaframleiðslu. Það er ekki rétt, sem komið hefur fram í fjölmiðlum, að á umbúðunum standi skýrum stöfum að saltið sé ekki ætlað til matvælaframleiðslu, hins vegar stendur á umbúðunum: „For industrial use only“. Á því er töluverður munur. Rétt er að taka fram að kjötvinnslufyrirtæki nota svo til eingöngu nítrítsalt og að allt nítrítsalt á markaði hérlendis er framleitt samkvæmt stöðlum um matvælaframleiðslu.

Sala á iðnaðarsalti til matvælaframleiðenda virðist hafa viðgengist um árabil án athugasemda frá eftirlitsaðilum. Mistökin liggja því víða, hjá þeim sem flytur saltið til landsins og setur það á markað, hjá fyrirtækjum sem kaupa og nota vöruna án athugasemda og eftirlitsaðilum sem ekki hafa áttað sig á dreifingu hennar til matvælaiðnaðar. Þó er lán í óláni að engar líkur eru taldar á að saltið hafi valdið heilsutjóni þar sem innihald þess er í meginatriðum það sama og salts til matvælaframleiðslu, sjá yfirlýsingu frá framleiðanda. Málið er engu að síður alvarlegt og mikils um vert að allir hlutaðeigandi sameinist um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Átaksverkefni um innra eftirlit
Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa ákveðið að ráðast í samræmt eftirlitsverkefni á árinu 2012 til að kanna innra eftirlit matvælafyrirtækja. Að gefnu tilefni hefur Matvælastofnun lagt til að í þessu verkefni verði sérstaklega kannað hvernig matvælafyrirtæki sinna móttökueftirliti. Í móttökueftirliti felst skoðun hráefna, annarra innihaldsefna, umbúða og allra annarra aðfanga til að tryggja að þau séu ætluð til vinnslu og pökkunar á matvælum og standist kröfur um hollustuhætti. Samtök iðnaðarins hvetja félagsmenn til að fara yfir verklagsreglur sínar við móttöku allra aðfanga og ganga úr skugga um að þau uppfylli kröfur sem til þeirra eru gerðar. Matvælafyrirtæki bera ábyrgð á öryggi eigin vöru og að skilyrði matvælalöggjafar sé uppfyllt. Öllum matvælafyrirtækjum er mikilvægt að geta sýnt fram á að þau axli sína ábyrgð og séu trausts verð. Á vef Matvælastofnunar, www.mast.is má lesa meira um fyrirhuguð átaksverkefni.