Fréttasafn



  • GT-Taekni---A-vottun

25. jan. 2012

GT Tækni fyrst allra fyrirtækja til að fá A-vottun

GT Tækni ehf. hlaut nýlega A-vottun gæðastjórnunar Samtaka iðnaðarins sem er staðfesting á því að fyrirtækið sé með skilgreinda og skjalfesta vinnu og verkferla sem byggja á viðurkenndum aðferðum við rekstur og stjórnun. Þetta er fyrsta fyrirtækið sem lýkur ferlinu en um er að ræða lokahluta vottunarferlis sem tekin erí fjórum áföngum.

Í gæðavottuninni felst staðfesting á að rekstur fyrirtækis er markviss og  skilvirkur. Fyrirtækið fer árlega í gegnum stefnumótun og markmiðasetningu sem leiðir til að allir starfsmenn róa í sömu átt í að betri árangri. . Þannig eykst framleiðni og fyrirtækin skila meiri hagnaði. Þá felst mikið öryggi í því fyrir viðskiptavini að vita að fyrirtæki sé vel stjórnað.

Bolli Árnason framkvæmdastjóri GT Tækni segir vottunin skipta miklu máli. „Það er sífellt háværari krafa frá viðskiptavinum okkar um það að birgjar séu með skjalfesta gæðavottun. Það auðveldar þeim eftirlit með aðföngum og vinnu ef þeir geta treyst því að birgjarnir vinni samkvæmt fyrirfram skilgreindu ferli. Þetta sýna nýleg dæmi sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið. Einn af okkar viðskiptavinum setti það sem forsendu fyrir langtíma viðskiptasamningi að fyrirtækið væri með svona vottun.“

Bolli segir að fyrirtækið hafi ákveðið að nýta áfangaskipta gæðavottun SI sem leið að lokamarkmiði fyrirtækisins sem er að fá ISO 9001 vottun. Þetta séu viðráðanlegri skref fyrir smærri fyrirtæki sem eru að hefja vegferð sína í átt að gæðavottun. „Áfangaskipta gæðavottunin er skjalfest gæðavottun í fjórum viðráðanlegum áföngum frá D til A þar sem hver áfangi er skjalfestur. Nú þegar við höfum lokið við síðasta áfangann sem er A- vottun er lokamarkmiðið ekki svo ýkja langt í burtu. Við stefnum að því að ljúka við ISO 9001 vottunina á þessu ári.“

GT Tækni hefur einnig samið við SI að halda utan um gæðahandbók fyrirtækisins. Skjölin eru nú vistuð á sérhönnuðum gæðavef samtakanna þar sem þau eru flokkuð eftir efnisþáttum. GT Tækni hefur þar með aðgang að gæðakerfi sínu á vefnum sem gerir aðgengi að skjölum og þjónustu sérfræðinga mun betra.

„Við erum ekki að kúvenda einu eða neinu í rekstrinum, heldur skjalfesta það sem gott er og breyta og bæta þar sem þess er þörf,“ segir Bolli. Betra skipulagi hafi verið komið á hlutina og aðgengi að upplýsingum bætt. Þetta sé hálfgerður gátlisti fyrir stjórnunarleg atriði sem skipti máli og þurfi að vera í lagi. „Þannig að þetta snýst um stjórnun og rekstur og markviss stjórnun hjálpar til að bæta afkomuna.“ Segir Bolli að lokum.