Vel sótt ráðstefna Iðnmenntar
Fyrirlesarar voru: Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, sem talaði um stefnu ráðuneytisins í starfsmenntun, Baldur Gíslason, skólameistari Tækniskólans, sem rakti þróun starfsmenntunar frá meistaranámi til verknámsskóla, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem ræddu sýn atvinnulífsins á starfsmenntun, Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs HÍ, sem talaði um skólavæðingu menntunar og hversu lengi menntunin dugar og Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, sem kynnti helstu þætti um bestu leiðir í starfsmenntun að mati OECD. Ráðstefnustjóri var Ársæll Guðmundsson, skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði.
Meginniðurstaða ráðstefnunnar var að efla þurfi samstarf allra þeirra sem að starfsmenntun koma. Skerpa þarf á stöðu nemenda í starfsþjálfun á vinnustað og er notkun markmiðssettra ferilbóka þar grundvallaratriði. Rætt var um eflingu og styrkingu starfsmenntunar, m.a. til að fækka þeim sem eru ómenntaðir á vinnumarkaðnum. Fram kom á ráðstefnunni mikill hugur til að efla starfsmenntun í landinu og mikilvægi náms á vinnustað eða undir leiðsögn meistara.
Fullt var út úr dyrum og má ljóst vera að áhugi á starfsmenntun á framhaldsskólastigi er mikill.
Iðnmennt ses er ætlað að stuðla að eflingu iðn-, tækni- og starfsmenntunar, m.a. með útgáfu og dreifingu námsgagna til iðn-, tækni- og starfsmenntaskóla í landinu undir útgáfuheiti IÐNÚ. Á vef félagsins, www.idnu.is er hægt að nálgast glærur fyrirlesara, niðurstöður hópavinnu og hljóðupptökur af ráðstefnunni.