Fjölmenni á UT messu 2012
UT messan stóð frá morgni fram á kvöld og skiptist í nokkra viðburði. Þrjú þemu voru til umfjöllunar í málstofum þar sem erlendir og innlendir fyrirlesarar héldu áhugaverð erindi fyrir stjórnendur, UT-sérfræðinga í rekstri og hugbúnaðarþróunarfólk.
Um 40 fyrirtæki voru með bása á glæsilegu sýningarsvæði sem var opið almenningi til 21.00. og frá kl. 16.00 var boðið upp á örkynningar, 10-15 mínútna fyrirlestra sem henta öllu áhugafólki um upplýsingartækni.
Upplýsingatækniverðlaun Ský voru veitt á messunni og féllu í skaut Maríusar Ólafssonar, sem kallaður hefur verið faðir internetsins á Íslandi. Verðlaunin voru afhent af Ara Kristni Jónssyni, rektor HR.
Einurð og framtíðarsýn þurfti til að innleiða Internettæknina hér á landi. Þar var Maríus fremstur í flokki. Hann lagði þrotlausa vinnu í að koma á réttri högun á internetið á Íslandi. Tryggja þurfti að allir netþjónar tengdust rétt inn á netið, að það væri rétt upp byggt, að íslenska væri gjaldgeng á vefsíðum o.s.frv.
Tilgangur UT-messunnar er að vekja athygli á mikilvægi upplýsingatækninnar og áhrif hennar á einstaklinga, fyrirtæki og íslenskt samfélag. Markmiðið er að sjá marktæka fjölgun nemenda sem velja sér tæknigreinar sem svið í háskólum landsins, tengja upplýsingatæknina betur við skólastarf og atvinnulíf og vekja áhuga almennings á upplýsingatækni og mikilvægi hennar á öllum sviðum daglegs lífs.
Skýrslutæknifélagið (Ský) stendur að UT messunni í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Microsoft Íslandi og Samtök iðnaðarins.