Fréttasafn



  • Nýsköpunarverðlaun forseta íslands 2012

14. feb. 2012

Áhættureiknir fyrir aldraða hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2012

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2012 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, 14. febrúar. Verkefnið sem hlaut verðlaunin að þessu sinni heitir Áhættureiknir fyrir hjarta- og kransæðasjúkdóma hjá öldruðum og var það unnið af Vilhjálmi Steingrímssyni, nemanda í læknisfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur hans í verkefninu voru Thor Aspelund og Vilmundur Guðnason hjá Hjartavernd.
 

Verkefnið gekk út á að útbúa tól sem aðstoðar við mat á áhættu á hjartaáföllum til skamms tíma hjá öldruðum og gefur þannig tækifæri til markvissra forvarna fyrir þann aldurshóp. Slík tól eru ekki aðgengileg í Evrópu í dag. Kransæðasjúkdómar eru ein helsta orsök alvarlegs heilsubrests hjá öldruðum og kostnaður við lyf og þjónustu sem fylgir hjartaáföllum er mikill. Með því að seinka eða koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar kransæðasjúkdóms má bæta lífsgæði aldraðra og einnig létta af heilbrigðiskerfinu. Í verkefninu er leitast við að finna þætti með forspárgildi sem einstaklingar geta sjálfir haft árhrif á, eins og reykingar, hreyfingu, blóðfitu og blóðþrýsting (með bættu mataræði), sem og að búa til tæki fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að styðjast við í fyrirbyggjandi starfi hvað varðar hjarta- og kransæðasjúkdóma meðal aldraðra.

Það var mat dómnefndar að þetta verkefni hefði til að bera alla þá eiginleika sem lagðir voru til grundvallar við mat á verkefnum.  Þannig gæti það leitt til nýsköpunar, hagnýtingarmöguleikar þess væru miklir og það stuðlaði vel að samstarfi háskóla, stofnanna og fyrirtækja, auk þess sem sjálfstætt framlag nemenda var mikið.  Verkefnið er vel unnið, mjög áhugavert og vekur okkur til umhugsunar um lífsgæði aldraðra.

Um verðlaunin

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í sautjánda sinn. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin. Samtök iðnaðarins gefa verðlaunin í ár, en verðlaunagripurinn, Hnallur, er unninn úr endurunnu efni af þeim Daníel Hirti Sigmundssyni og Lindu Mjöll Stefánsdóttur, sem saman mynda lista- og hönnunarteymið Krukka.  Allir sem tilnefndir eru og hafa hlotið þá viðurkenningu að verkefnið þeirra hefur verið valið sem öndvegisverkefni Nýsköpunarsjóðs námsmanna fá ljósmynd eftir ljósmyndarann Ara Sigvaldason facebook/ari sigvaldason - og auðvitað verðlaunaskjal undirskrifað af forsetanum.

Nýsköpunarsjóður námsmanna

Nýsköpunarsjóður námsmanna var stofnaður árið 1992 til að útvega áhugasömum nemendum sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknaverkefni.  Styrkjum er úthlutað til kennara á háskólastigi, fyrirtækja, rannsóknastofnana eða einstaklinga sem hafa sérþekkingu á ákveðnu sviði, til þess að ráða háskólanema til sumarstarfa. Markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, jafnt fyrir atvinnulíf sem og á viðkomandi fræðasviði.