Food and Fun hefst í dag
Veitingastaðirnir bjóða fjögurra rétta sælkeramáltíð eins og undanfarin ár á sama verði á öllum stöðum. Þrátt fyrir miklar verðhækkanir á hráefniskostnaði helst verðið óbreytt frá síðustu árum. Miðvikudags-, fimmtudags- og sunnudagskvöldið kostar 4ra rétta matseðill 6.900 kr. en föstudags- og laugardagskvöld 7.400 kr.
Árlega er keppt um “Food & Fun Chef of the Year” verðlaunin sem eru orðin vel þekkt og eftirsóknarverð í sælkeraheiminum. Keppnin, þar sem þrír efstu kokkarnir etja kappi, verður haldin í Hörpunni laugardaginn 3. mars. Hún verður með nýstárlegu sniði í ár þar sem almenningi gefst kostur á að fylgjast með meisturunum elda úr fyrirfram ákveðnu hráefni sem valið er fyrir þá.
Tilgangur hátíðarinnar er annars vegar að vekja athygli á íslenskri matargerðarlist, gæðum íslenskra hráefna og matvælaframleiðslu. Hins vegar að fjölga ferðamönnum til borgarinnar utan háannatíma.
Frá upphafi hefur Food and Fun snúist um að boða til landsins erlenda matreiðslumeistara, kynna fyrir þeim íslensk gæðamatvæli og Ísland og Reykjavík sem sælkeraland- og borg. Það hefur skilað sér í umtalsverðri umfjöllun í erlendum fjölmiðlum og meðal veitingamanna, en um 200 erlendir matreiðslumeistarar og fjöldi annarra matgæðinga og fjölmiðlamanna hafa komið á hátíðina frá upphafi. Meðal annars valdi nýlega hið virta tímarit National Geographic Food and Fun eina merkustu matarhátíðina í sælkeraheiminum.
Samtök iðnaðarins eru meðal bakhjarla hátíðarinnar.