Fréttasafn  • undirskrift-mainmanager

5. mar. 2012

Norska ríkið velur MainManager

Þann 29. febrúar sl. var undirritaður samningur milli Statsbygg í Noregi og ICEconsult um kaup á hugbúnaði og ráðgjöf. Samningurinn felur í sér að Statsbygg mun taka í notkun hugbúnaðinn MainManager til að sinna þjónustu, rekstri og viðhaldi á eignasafni norska ríkisins.  Um leið og þessi samningur er sá langstærsti sem félagið hefur gert, þá er hann gríðarleg viðurkenning og opnar dyr á nýja markaði.

Ákvörðunin var tekin á grundvelli umfangsmikils útboðs- og samningaferlis sem hófst fyrir rétt tæpu ári.  11 fyrirtæki víðs vegar af Norðurlöndum tóku þátt og komust þrjú þeirra í lokafasa útboðsins. Eiginleikar hugbúnaðarins, reynsla starfsfólks, framtíðarsýn og verðlagning voru lögð til grundvallar. Niðurstaðan var afgerandi þar sem ICEconsult / MainManager hlaut hæstu einkunn á öllum þáttum.

Statsbygg er einn stærsti rekstraraðili opinberra eigna í Noregi með um 2.350 eignir í sinni umsjá, auk þess að stýra og reka fjölmörg fjárfestingar- og þróunarverkefni. Þar má m.a. nefna háskóla, skrifstofuhúsnæði, menningarsöguleg mannvirki, fangelsi, konunglegar byggingar, sendiráð o.fl.

ICEconsult sérhæfir sig í aðstöðustjórnun (Facility Manament). Aðstöðustjórnun miðar að því að auka arðsemi fyrirtækja með markvissri stýringu stoðferla.  Með stoðferlum er m.a. átt við stjórnun þróunar-, viðhalds- og rekstrarverkefna, gerð og stýringu þjónustusamninga, umsýslu leigusamninga, gæðastjórnun, orkumál o.fl.  MainManager er notaður af fyrirtækjum og stofnunum í fjórum löndum auk Noregs.