Fréttasafn



  • Lög

5. mar. 2012

Rammasamningsútboð Ríkiskaupa um þjónustu verktaka í iðnaði utan suðvestur hornsins fellt úr gildi

Kærunefnd útboðsmála felldi í dag úr gildi rammasamningsútboð Ríkiskaupa um þjónustu verktaka í iðnaði utan suðvestur hornsins. 

Tildrög málsins voru þau að sl. sumar hélt Ríkiskaup rammasamningsútboð vegna viðhalds á fasteignum í eigu ríkissjóðs á öllu landinu. Í framhaldinu var síðan gengið til samninga við fjölda iðnaðarmanna víðs vegar á landinu á grundvelli niðurstöðu rammasamningsútboðsins. 

Ríkiskaup ákvað svo í október / nóvember sl. að bjóða þetta aftur út, þó einungis utan suðvestur hornsins þar sem ekki bárust nægilega mörg tilboð frá iðnaðarmönnum úti á landi. Félagsmenn SI mótmæltu þessu og þá sérstaklega þeir iðnaðarmenn á landsbyggðinni sem voru komnir með bindandi samning við Ríkiskaup eftir niðurstöður fyrra útboðsins. SI kærðu, f. h. félagsmanns, rammasamningsútboðið til kærunefndar útboðsmála.

Í rökstuðningi kærunefndar útboðsmála segir m.a. að skv. meginreglum útboðsréttar sé rammasamningshafa að alla jafna ekki í sjálfsvald sett að ákveða hvort keypt verði inn á grundvelli rammasamnings eða skipt við aðra aðila. Ákvæði í lögum um opinber innkaup hefur að geyma undantekningu frá þessari meginreglu ef mælt er fyrir um í útboðsgögnum að kaupendur séu ekki skuldbundnir til að skipta eingöngu við aðila rammasamnings við þau innkaup sem samningur tekur til. Hvergi í gildandi rammasamningi, sem komst á í kjölfar rammasamningsútboðsins síðastliðið sumar, var að finna frávik frá fyrrgreindri meginreglu laga um opinber innkaup. Samkvæmt því bar Ríkiskaupum að kaupa inn á grundvelli gildandi rammasamnings.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. mars 2012 í máli nr. 35/2011