Fréttasafn



  • Iðnþing2012-Rannveig

15. mar. 2012

Erum við að leysa rétta vandann?

Rannveig Rist sagði á Iðnþingi í dag að of mikið væri einblínt á efnahags- og fjármál á Íslandi, því rót vandans væri miklu fremur slæmt siðferði, eiginhagsmunasemi, óheiðarleiki og virðingarleysi. Sagði hún að Íslendingar þyrftu að taka sig saman í andlitinu hvað þetta varðar. Þá sagði hún ekki búandi við það til lengdar hversu lítið traust helstu stofnanir samfélagsins hafa hjá almenningi.

Rannveig sagði frá 60 milljarða fjárfestingarverkefni í Straumsvík sem fengið hefði fremur litla athygli, og sagði ástæðuna sennilega þá að ekki væri ágreiningur um verkefnið, en ágreiningi og deilum væri hampað of mikið í umræðunni. Loks benti hún á að tillaga iðnaðar- og umhverfisráðherra um flokkun virkjanakosta fæli í sér verndun á yfir helmingi virkjanakosta. Aftur á móti væri þar boðað grænt ljós á undirbúning umtalsverðrar orkuöflunar, eða sem nemur um 13 terawattstundum. Sú orka myndi duga fjórum Straumsvíkurálverum og að auki til 20-földunar ylræktar. Þarna væru því forsendur fyrir mjög mikilli verðmætasköpun. Sagðist hún vona að nýtingarflokkur yrði ekki minnkaður um fjórðung, eins og nefnt hefði verið í fréttum, enda stæði þá aðeins eftir að leyft væri að byggja eina nýja  vatnsaflsvirkjun á Íslandi, Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Taldi hún ótrúlegt að það yrði sú sáttatillaga sem áralöng vinna við rammaáætlun átti að skila.

Loks sagðist Rannveig sannfærð um að iðnfyrirtæki landsins yrðu í fararbroddi nýrrar sóknar á Íslandi.