Fréttasafn



  • iðnþing2012-Sigsteinn

15. mar. 2012

Verðmætasköpun í hátækniiðnaði

Aukin útflutningsverðmæti eru forsenda varanlegs hagvaxtar sagði Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marel sagði í erindi sínu á Iðnþingi í dag. Marel er skólabókardæmi um fyrirtæki sem hefur náð afburðarárangi á liðnum áratugum.

Nýsköpun er annar af þeim þáttum sem eru forsenda fyrir vexti og árangri Marel. “Árlega verjum við hjá Marel fimm til sjö prósentum af veltu til nýsköpunar og þróunar” sagði Sigsteinn. “Okkar nýsköpun er markaðsdrifin. Við erum vakin og sofin yfir þörfum markaðarins og þróun hans.”

“Okkar starfsvettvangur er að þjónusta matvælaframleiðendur. Okkar markaðssvæði er nánast allur heimurinn. Við höfum 17 framleiðslueiningar eða verksmiðjur um allan heim. Við erum meðvituð um próteinþörf á ört stækkandi markaði. Í dag eru 1.8 miljarðar manna sem kallast virkir neytendur – þessi hópur mun að öllum líkindum vaxa í 4,9 miljarða árið 2050. Eini raunverulegi möguleikinn til að fæða þennan fjölda er að auka framleiðni og þar liggja framtíðartækifæri okkar. Með sanni má segja að við erum drifin áfram af aukinni neyslu próteins.”

Sigsteinn segir Marel velja fjölbreytileika á markaði þjónustu við matvælafyrirtæki. Í raun séu áherslur fjórþættar. “Við byrjuðum í fiskiðnaði, síðan höfum við bætt við kjötframleiðslu, kjúklingaframleiðslu og fullvinnslu allra þessara þriggja þátta.”

Seinni þátturinn er markaðssókn. Markaður Marel vex um 4 prósent árlega en aðrir nýir markaðir vaxa um sex til átta prósent. Fyrirtækið hefur haslað sér völl í BRIK löndunum svokölluðu (Brasilíu, Rússlandi,Indlandi og Kína). Þar er vöxturinn gríðarlegur og tækifærin stórkostleg.

Allt frá því að fyrirtækið var sett á markað fyrir 20 árum hefur það vaxið. Það er áhyggjuefni að mati Sigsteins að það séu engin fyrirtæki sjáanleg sem eru á svipaðri braut.