Fréttasafn



  • LS RETAIL

19. mar. 2012

Bandarísk verslunarkeðja velur íslenskan hugbúnað í allar verslanir sínar

Bandaríska fyrirtækið Event Network Inc., sem rekur fjölda verslana í söfnum og görðum í N-Ameríku, hefur gert samning við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail og Microsoft Dynamics NAV. Kerfin verða innleidd í allar verslanir fyrirtækisins í Bandaríkjunum.

Event Network rekur verslanir í tugum safna og garða um öll Bandaríkin. Má þar m.a. nefna Abraham Lincoln safnið, Harry Potter safnið, Titanic safnið, American Museum of Natural History, New York State Museum, dýragarðana í Cleveland, Indianapolis, Fíladelfíu og Phoenix o.m.fl.

Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail, segir þennan samning því vera mjög stóran og mikilvægan.

„Menningatengd afþreying er orðin gríðarlega mikilvægur þáttur í samfélagi okkar. Event Network hefur náð forystuhlutverki í Bandarríkjunum í rekstri verslana sem reknar eru í tengslum við menningartengda afþreyingu í N-Ameríku, til dæmis í söfnum og ýmiss konar görðum og því er hér um afskaplega dýrmætan og mikilvægan samning að ræða,“ segir Magnús.

Um LS Retail

LS Retail hefur starfað hérlendis í rúma tvo áratugi eða frá árinu 1988. Megnið af viðskiptum fyrirtækisins fer fram erlendis þar sem það á í samstarfi við yfir 120 aðila í 60 löndum um allan heim.

LS Retail stendur að baki háþróuðum afgreiðsluhugbúnaði sem hefur átt miklum vinsældum að fagna um árabil. Fyrirtækið er í nánu samstarfi við Microsoft, sem er eitt stærsta og virtasta fyrirtæki heims á sviði hugbúnaðar.

Daglega starfa á bilinu þrjú til fjögur þúsund manns um allan heim í tengslum við starfssemi LS Retail.

Þrátt fyrir að viðskipti LS Retail fari að mestu leyti fram erlendis þá er fyrirtækið alíslenskt og fer öll þróunarvinna fram hérlendis. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 70 manns með víðtæka menntun og reynslu.

Á meðal erlendra stórfyrirtækja sem nota búnað LS Retail má nefna adidas, Ikea, Debenhams, Starbucks, Subway, Pizza Hut, Puma o.m.fl.