Fréttasafn  • Orf líftækni

28. mar. 2012

ORF Líftækni eykur hlutafé um 300 milljónir

ORF Líftækni hefur nú lokið hlutafjáraukningu upp á 300 milljónir króna í samstarfi við Arctica Finance. Fjórtán innlendir og erlendir fjárfestar tóku þátt í hlutafjáraukningunni og var umframáskrift 13,7%. Fjármagnið hyggst ORF Líftækni nýta til áframhaldandi uppbyggingar á framleiðslu fyrirtækisins og til aukins markaðsstarfs erlendis. Hluthafar ORF Líftækni eftir hlutafjáraukninguna eru um 80 talsins.

 

Mikill árangur hefur náðst í markaðssetningu á framleiðsluafurðum ORF Líftækni bæði hér heima og erlendis. Sif Cosmetics, dótturfélag fyrirtækisins, sér um markaðssetningu á húðvörum með frumuvökum sem framleiddir eru af ORF Líftækni. EGF húðvörurnar eru mest seldu húðvörurnar á Íslandi í dag og BIOEFFECT® húðvörulína fyrirtækisins hefur hlotið mjög góðar viðtökur í Evrópu. Þá er mikill áhugi hjá stórum líftæknifyrirtækjum á ISOkine™ vaxtarþáttum fyrirtækisins, sem notaðir eru við læknisfræðilegar rannsóknir, en ORF Líftækni  býður upp á meira úrval af vaxtarþáttum sem framleiddir eru í plöntum en nokkurt annað fyrirtæki í heiminum.

Eftir tíu ára rannsókna- og þróunarstarf hefur sala á framleiðsluafurðum ORF Líftækni margfaldast á síðustu misserum og á síðasta ársfjórðungi 2011 var afkoma félagsins jákvæð. Á árinu 2011 námu tekjur ORF Líftækni ríflega 360 milljónum króna og höfðu þrefaldast frá árinu 2010. Gert er ráð fyrir því að tekjur fyrirtækisins muni enn tvöfaldast á þessu ári, með aukinni sölu og sókn á nýja útflutningsmarkaði.