Fréttasafn29. mar. 2012

Þróun gengis og verðlags áhyggjuefni

Frá ársbyrjun hefur gengi evru hækkað gagnvart krónu um rúm 6% og kostar nú 169 krónur. Verðlag í mars hækkaði um 1% og er verðbólgan komin í 6,4%. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir þessa þróun vera mikið áhyggjuefni. „Þróun gengis hefur afgerandi áhrif á þróun verðlags. Að óbreyttu fáum við þessa veikingu í hausinn í formi hækkandi vöruverðs.“ 
 

Til viðbótar við veikingu á gengi krónunnar eru ýmsar hrávörur að hækka verulega í verði. „Við þekkjum vel þróun á olíuverði en hækkun á henni hefur líka áhrif á aðrar vörur s.s. hráefni í matvælagerð en með nokkurri töf. Frá byrjun nóvember 2011 og til dagsins í dag hefur verð á hveitikorni og sojamjöli t.d hækkað um 20% og þegar nýir farmar berast til Íslands fer það illa saman við þróun á gengi krónunnar. Ég óttast hækkanir á innfluttum afurðum og innlendri framleiðslu sem er háð innfluttum hráefnum, sérstaklega í matvælaiðnaði “, segir Bjarni Már.  

Fáir góðir kostir eru í stöðunni. Vaxtahækkanir í veikri von um að styðja við gengi krónunnar og vinna gegn verðbólgu er stefna sem hefur ekki gengið hingað til. Við verðum fyrst og fremst að ná tökum á gjaldmiðlum og skapa hér aðstæður sem styðja við sterkara gengi krónunnar.