Fréttasafn  • ECOTrophelia

2. apr. 2012

Mysuklakinn Íslandus: frumlegur, umhverfisvænn og bragðgóður

Elín Agla Briem og Sigríður Anna Ásgeirsdóttir, nemendur í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands báru sigur úr býtum í keppni um hönnun nýstárlegrar og umhverfisvænnar matvöru.

 

Á HönnunarMars fór fram sýningin EcoTrophelia Iceland sem er fyrsta sýning og nemendakeppni sinnar tegundar á Íslandi. Fjöldi nemenda á háskólastigi hefur á síðustu mánuðum unnið að því að þróa vistvæna og frumlega matvöru á námskeiði sem haldið er í samstarfi háskóla og rannsóknastofnana. Afraksturinn var til sýnis í Listaháskóla Íslands um helgina en verðlaun fyrir frumlegustu, vistvænustu og markaðshæfustu hugmyndina voru veitt af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni á laugardaginn. Fimm hópar tóku þátt í keppninni og var rauði þráðurinn í öllum hugmyndunum að nýta vannýtt hráefni og aukaafurðir matvælavinnslu til að búa til markaðshæf matvæli. M.a var unnið með afgangstómata, fiskroð, lambaþindar, þara og skyrmysu. Þær Elín Agla Briem og Sigríður Anna Ásgeirsdóttir, nemendur í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands eru höfundar sigurvörunnar. Vöruna nefna þær Íslandus, með vísun til Sölva Helgasona, en um er að ræða 100% náttúrulegan og lífrænan mysuklaka, bragðbættan með berjasafa og íslenskum jurtum. Höfundarnir lögðu áherslu á bætta nýtingu afurða, hugmyndaríka notkun á staðbundnu hráefni og vistvæna framleiðsluhætti við sköpun klakans. Kjartan Þór Trauner, nemandi við Listaháskóla Íslands sá um vöruhönnunina.

Mysuklakinn Íslandus verður framlag Íslands í Evrópukeppninni EcoTrophelia 2012 í París í október í haus. Þar munu vistvænar hugmyndir frá ýmsum löndum í Evrópu keppa sín á milli. Meginmarkmið þessa verkefnis og keppni er að stuðla að nýsköpun og þróun nýrra og umhverfisvænna matvara meðal þverfaglegra teyma á háskólastigi auk þess að laða nemendur að matvælasviðinu, samhliða því að þróa umhverfisvitund og frumkvöðlahugsun til framtíðar.