Fréttasafn



  • _HAG9015

16. apr. 2012

Metþátttaka á Seed Forum Iceland

Átta fyrirtæki kynntu á Seed Forum Iceland ráðstefnunni í Arion banka 13. apríl. Fimm íslensk sprotafyrirtæki, tvö norsk fyrirtæki og eitt sænskt/breskt fyrirtæki kynntu sig fyrir fjárfestum á Seed Forum Iceland. Íslensku sprotafyrirtækin eru: Unimaze Software, FPG, Locatify, Grapewire,  Nordic Photos. Erlendu fyrirtækin eru: Fair Trading Technology, Trianglo og Dento Tech. Frumkvöðullinn á bak við Dento Tech er Espen Høiby, sem er betur þekktur í Noregi fyrir að vera bróðir krónprinsessu Noregs, Mette-Marit Tjessem Høiby, sem er gift Haakon Magnus krónprinsinum í Noregi.

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, opnaði 15. Seed Forum Iceland ráðstefnuna sem haldin var á vegum Sprotaþings Íslands í Arion banka 13. apríl sl. Um tvöhundruð manns mættu á þingið og er það metþátttaka. Fleiri en 100 sprotafyrirtæki hafa kynnt fyrir fjárfestum á Seed Forum Iceland frá því að fyrsta Seed Forum Iceland þingið var sett árið 2005.  

Aðalræðumaður þingsins var Joachim Krohn-Høegh, framkvæmdastjóri Argentum,  sem er stærsti áhættufjárfestingarsjóður á Norðurlöndum með eignasafn sem er rúmlega 150 milljarða króna virði. Argentum er í eigu norska ríkisins en forsvarsmenn sjóðsins hittu lykilaðila í íslensku fjárfestingarumhverfi og hafa lýst yfir áhuga á að fjárfesta í íslenskum  áhættufjárfestingarsjóðum. 

Ennfremur hélt Torkel Ystgaard, aðstoðarframkvæmdastjóri SIVA , erindi en SIVA rekur m.a. 44 iðnaðargarða og er hluthafi í 145 sprotafyrirtækjum.

Fyrsta Seed Forum Iceland þingið var haldið 28. apríl 2005 en tvö þing eru haldin árlega, að vori og hausti. Seed Forum Iceland var frá upphafi mótað sem vettvangur fyrir sprotafyrirtæki til þess að kynna sig fyrir fjárfestum og til þess að vekja athygli á mikilvægi sprotafyrirtækja á Íslandi. Aðalstyrktaraðili Sprotaþings Íslands er Arion banki.

Seed Forum Iceland er rekið af Sprotaþingi Íslands sem samfélag hagsmunaðila sprotafyrirtækja og fjárfesta á Íslandi. Aðilar Sprotaþings Íslands eru: Samtök iðnaðarins, Viðskiptaráð, Eyrir Investments, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Íslandsstofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Iðnaðarráðuneytið, Nýherji og Klak – Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins. Jafnframt hafa breska og norska sendiráðið stutt Seed Forum Iceland.