Fréttasafn



  • Marel

20. apr. 2012

Stærsti sölusamningur Marel í fiskiðnaði

Marel gekk nýlega frá stærstu sölu fyrirtækisins í fiskiðnaði með samningum við fiskframleiðanda í norðausturhluta Kína. Um er að ræða nýja flæðilínu fyrir hvítfisk sem verður sérstaklega sniðin að þörfum kínverskra fiskframleiðenda. Flæðilínan er meðal þess hátæknibúnaðar sem Marel sýnir á sjávarútvegssýningunni í Brussel í næstu viku. Fjárhæð samningsins samsvarar 1-2% af ársveltu Marel.
 

Aðstæður á vinnumarkaði og hækkandi framleiðslukostnaður í Kína hefur skapað aukna þörf fyrir sjálfvirkni í verksmiðjum þar í landi. Vöruframboð og lausnir Marel auka framleiðsluhraða, hráefnisnýtingu og -meðferð í fiskiðnaði auk þess sem Marel býður upp á hugbúnaðarlausnir til öflugri framleiðslustýringar.

Auk Marel komu íslensku fyrirtækin 3X Technology og Skaginn að því að gera þetta nýsköpunarverkefni að veruleika: “Þessar sérsniðnu flæðilínur voru hannaðar sérstaklega fyrir kínverskan markað,” segir Kristmann Kristmannsson, söluráðgjafi Marel. “Kínverski markaðurinn er að breytast, fyrirtæki sækjast í auknum mæli eftir sjálfvirkum búnaði og tækjum í stað þess að vera með mikinn mannafla í framleiðslu. Við hjá Marel erum afskaplega ánægð með árangurinn og þær lausnir sem fyrirtækið hefur þróað í þessu samstarfi.”

Sölusamningur sem þessi er til marks um þá stefnu sem Marel hefur fylgt á alþjóðlegum markaði, að leggja enn frekari áherslu á sókn á nýmörkuðum eins og Kína þar sem vöxtur er mikill. Fiskiðnaðarsetur Marel í Qingdao mun gegna lykilhlutverki við uppbyggingu á starfseminni í Kína þar sem miklu skiptir að viðskiptavinir Marel hafi aðgang að þjónustu nálægt sínu starfssvæði.