Fréttasafn  • Fjárfestum í eigin landi

25. apr. 2012

Vel heppnaður fundur um nýfjárfestingar og mikilvægi þeirra

Nýfjárfestingar og mikilvægi þeirra voru efst á baugi á velheppnuðum fundi Samtaka  iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins í morgun á Hótel Hilton Nordica. Fjallað var um opinberar fjárfestingar í ljósi rammaáætlunar, samgönguáætlunar og nýs Landspítala. 
 

Í upphafi fundar kynnti Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá SI Rammaáætlun, undirbúning og aðdraganda og þá faglegu aðferðarfræði sem einkennt hefur undirbúningsferlið sem hófst árið 1999. Fagleg vinnubrögð biðu skipbrot þegar stjórnvöld rufu hina faglegu undirbúningsvinnu á síðustu metrunum sagði Bryndís sem lauk erindi sínu með þessum orðum: „Það sem við hjá Samtökum iðnaðarins gagnrýnum er að þarna á lokametrunum fer vinnan úr höndum faglega ferlisins og í pólitískan farveg. Þetta er hættulegt fordæmi. Nú má búast við að þegar kemur að endurnýjun áætlunarinnar muni stjórnvöld sem þá eru við völd, hvernig sem sú skipan verður, nýta sér þetta fordæmi og taka málin í sínar hendur á lokametrunum. Traust til áætlunarinnar bregst. Mikilvægi faglegra vinnubragða er sett í annað sæti. Sáttin og langtímasýnin sem var megintilgangur Rammaáætlunar er í hættu“.

Kristján L. Möller, formaður atvinnuveganefndar Alþingis gerði grein fyrir opinberum fjárfestingum og atvinnusköpun. Hann minntist m.a. á nokkur verkefni sem rætt hefði verið um að ráðast í með þátttöku lífeyrissjóðanna. Hann sagði að það hefði verið rétt ákvörðun hjá stjórnvöldum að hafna tilboði lífeyrissjóðanna að fjármagna framkvæmdir á Suðvesturlandi. Sjóðirnir hefðu krafist 3,9% ávöxtunar og álags sem hefði skilað þeim 4,25% ávöxtun. Stjórnvöld hefðu viljað miða við skuldabréfaflokk á markaði sem í dag skilaði 2,68% ávöxtun.  

Þá gerði Gunnar Svavarsson, formaður byggingarnefndar um nýjan Landspítala grein fyrir undirbúningi Nýs Landspítala. Samkvæmt honum er verkefnið komið það langt á veg að nú þurfi stjórnmálamenn að kveða upp úr hvort eigi að ráðast í framkvæmdir.  

Heiðrún Jónsdóttir stjórnarmaður í Gildi lagði áherslu á að hinu opinbera beri að nálgast lífeyrissjóðina faglega sem fjárfesta. Það sé skýrt  afmarkað í lögum með hvaða hætti lífeyrissjóðir mega ávaxta fé sitt. Hver og einn sjóður skoðar sjálfstætt þá fjárfestingarkosti sem í boði eru og horfa til verkefnisins í heild þ.m.t. arðsemi, tryggingar og eiginfjár verkefnisins. Vel valdar fjárfestingar eru til þess fallnar að auka hagvöxt og atvinnustig.

Að loknum framsögum kynntu Bjarni Benediktsson, sjálfstæðiflokki, Sigurður Ingi Jóhannesson, framsóknarflokki, Magnús Orri Schram, Samfylkingu og Björn Valur Gíslason, Vinstri grænum afstöðu þingflokkanna til verkefnanna. 

Eftir framsögn fulltrúa þingflokkanna var afstaða þeirra ekki öllum fundarmönnum jafn ljós. Blaðamaður Morgunblaðsins gerði umræðu stjórnmálamannanna á fundinum ágætlega skil á mbl.is.

Glærur

Bryndís Skúladóttir

Gunnar Svavarsson

Heiðrún Jónsdóttir

Björn Valur Gíslason