Fréttasafn  • G. Skúlason - d vottun

30. apr. 2012

G. Skúlason vélaverkstæði hlýtur D - vottun

G. Skúlason vélaverkstæði hefur staðist úttekt á fyrsta þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D-vottun.

D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Í því felst að rekstur fyrirtækis er gerður skilvirkari. Fyrirtækið fer í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind. Við þetta eykst framleiðni og fyrirtækin skila meiri hagnaði.

G. Skúlason vinnur að málmsmíði, málmvörugerð og vélasmíði, jafnt viðgerðir sem nýsmíði.

Verkefni hafa frá upphafi aðallega verið þjónusta við sjávarútveg.

Rekstur verkstæðisins hófst árið 1987. Árið 1997 var rekstrinum breytt í einkahlutafélag og 2002 var rekstur vélaverkstæðis Síldarvinnslunnar sameinaður við G. Skúlason jafnframt því sem fyrirtækið Sandblástur keypti sig inn í fyrirtækið. 2003 var Vélaverkstæði Björns og Kristjáns keypt og einnig 1000 fermetra iðnaðarhúsnæði á Reyðarfirði þar sem hefur verið vaxandi þjónusta við jarðvinnu og byggingaverktaka. Í byrjun árs 2008 seldi G. Skúlason starfstöð sína á Reyðarfirði til dótturfélags síns Launafl.

Starfsmenn eru í dag um 30 talsins.

Á mynd má sjá Jón Valgeir Jónsson, verkstjóra og Ingibjörgu Bjarnadóttur, öryggis- og gæðastjóra taka við vottuninni