Matís leggst á árarnar með heimamönnum við Breiðafjörðinn og sunnanverða Vestfirði
Um alllangt skeið hefur Matís litið til tækifæra á sunnanverðum Vestfjörðum enda eru þar sem annarsstaðar í nágrenni Breiðafjarðar miklir möguleikar á aukinni verðmætasköpun tengt matvælum. Matís hefur nú ráðið tvo starfsmenn til þess að styðja við og vinna með heimamönnum að uppbyggingu á matvælaframleiðslu og tengdum atvinnuvegum á svæðinu.
Matís mun vinna með fyrirtækjum, sveitastjórnum og einstaklingum á svæðinu sem munu geta nýtt sér sérfræðiþekkingu Matís til uppbyggingar sinnar eigin starfsemi. Starfsemi Matís við Breiðafjörð byggir á traustu og öflugu samstarfi við heimamenn enda hafa þeir haft frumkvæði að þeirri uppbyggingu sem Matís ræðst nú í.
Mikil tækifæri felast á svæðinu. Sjávarútvegur er lykilatvinnugrein í stöðugri þróun en auk þess liggja sóknarfæri í uppbyggingu fiskeldis og nýtingu annarra hráefna á svæðinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum er mikil gróska í fiskeldi kröftug uppbygging á því sviði. Starfsemi Matís mun styðja við nauðsynlega rannsókna- og þróunaruppbyggingu í tengslum við fiskeldi, en horft er til þess að þjónusta við eldistengda starfsemi verði eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu. Þar sem stærsti kostnaðarliður fiskeldis liggur í fóðri og fóðrun er ekki hvað síst horft til þróunar er lýtur að lágmörkun fóðurkostnaðar.
Efling matvælaframleiðslu mun gegna lykilhlutverki í aukinni verðmætasköpun á sunnaverðum Vestfjörðum og við Breiðafjörðinn. Starfsfólk Matís hlakkar til að takast á við komandi verkefni með sveitarfélögunum á svæðinu, fyrirtækjum og heimamönnum öllum.
http://www.matis.is/um-matis/frettir/nr/3438