Fréttasafn



  • zorblobs

18. maí 2012

Nýr íslenskur tölvuleikur á markað

Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn Fancy Pants Global vinnur nú að þróun á nýjum tölvuleik sem það hyggst markaðssetja á síðari hluta þessa árs. Félagið markaðssetti á síðasta ári leikinn Maximus Musicus en nú hyggst félagið halda áfram á sömu braut. Félagið var kynnt á Seed Forum-ráðstefnunni fyrir skömmu og þá sótti félagið eftir 48 milljónum frá fjárfestum eða um 300.000 evra. Til þess að gera hógværar óskir en félagið gerir ráð fyrir að vaxa nokkuð hratt á næstu árum.

 

Starfandi síðan 2009

Fancy Pants Global hefur verið starfandi frá árinu 2009. Í fyrra var Maximus Musicus-leikur þess tilnefndur í flokkunum “besti norræni barnaleikurinn” og “besti leikurinn fyrir lófaleikjatölvur eða snjallsíma” á Nordic Game-tölvuleikjaráðstefnunni. Leikurinn er gerður fyrir iPhone, iPad og iPod Touch og kostar 0,99 dali í iTunes- verslunum. Honum er ætlað að kynna klassíska tónlist fyrir börnum eldri en fjögurra ára, meðal annars með ýmiss konar þrautum. Aðalpersónan, músin Maximus Musicus, er fengin úr barnabók eftir Hallfríði Ólafsdóttur sem Þórarinn Már Baldursson myndskreytti. Þau eru bæði í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Mjög vaxandi markaður

Fancy Pants Global hefur yfir að ráða talsvert mikilli þekkingu í myndrænni og grafískri vinnslu, sem og öllum sviðum hugbúnaðargerðar, en hjá félaginu starfa 12 manns í dag. Að sögn Jónasar Óskars Magnússonar, framkvæmdastjóra félagsins, hefur vinna við nýja leikinn gengið vel. Félagið er alfarið í eigu stofnenda þess.

Og það starfar á vaxandi markaði en eins og áður segir selur Fancy Pants Global vörur sínar í gegnum Apple iTunes Store. Þar hafa 315 milljón tæki verið seld, yfir 20 milljarðar niðurhlöð (e. downloads) og greitt var fyrir 13,6% af öllum niðurhlöðum. Líkar áætlanir má sjá hjá Google Play og Windows Phone Marketplace.