Aðalfundur LL 23. maí 2012
Aðalfundur Landssamtaka lífeyrissjóða var haldinn 23. maí sl. á Grand Hótel Reykjavík. Fyrir hefðbundin aðalfundarstörf voru tveir framsögumenn með erindi. Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hélt erindi sem bar yfirskriftina „Samfélagsábyrð fyrirtækja: Hræsni eða heilindi“. Í erindi sínu gerði hann grein fyrir þremur hópum gagnrýnenda, þeir sem nota hvert tækifæri til að gera lítið úr samfélagsábyrð fyrirtækja, raunverulegir efasemdamenn og þeir sem setja fram almenn rök gegn samfélagsábyrð fyrirtækja. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, kynnti Réttindabókina sem er nýr vefur í smíðum þar sem unnt verður að nálgast á einum stað upplýsingar um réttindi til ellilífeyris. Réttindabókin verður aðgengileg á fræðslusíðu LL, gottadvita.is, og er stefnt að því að opna hana á haustmánuðum. Ætlunin er að auka á hagræði sjóðfélaga, sem geta nálgast upplýsingar á einum stað, auk þess sem ætla má að fyrirspurnum um réttindi til allra undirliggjandi sjóða fækki. Sjóðfélagar munu geta skráð sig inn í réttindabókina með veflykli RSK.
Því næst hófust hefðbundin aðalfundarstörf og rakti Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar LL, ávarp og skýrslu stjórnar sem var afar ítarleg enda af nógu að taka. Fram kom að hrein samanvegin raunávöxtun lífeyrissjóðanna árið 2011 hefði verið 2,4% árið 2011 og heildareignir 2.200 milljarðar króna í lok mars 2012. Rakin var barátta sjóðanna á móti skattlagningu og nú síðast samskiptum við stjórnvöld vegna lánsveða og 110% leiðar. Eins og fyrr greinir var að mörgu að taka en skýrslu stjórnar LL má sjá á www.ll.is