Fréttasafn  • Morunverðarfundur SUT

29. maí 2012

Leiðir til að laða að hæfileikaríkt og áhugasamt fólk í tækni- og hugverkageirann

SUT stóð fyrir þriðja morgunverðarfundinum í fundarröð tækni- og hugverkaiðnaðarins innan SI föstudaginn 25. maí.

Hilmar Veigar Pétursson formaður SUT og forstjóri CCP opnaði fundinn með umfjölluninni  „Hvert ætlum við að stefna“ og þar komu fram áhyggjur af þróun mála og flótta fyrirtækja úr landi. Áhyggjurnar snúa m.a. að því að stjórnvöld hafi ekki fullan skilning á því hvar hagvaxtartækifæri þjóðarinnar liggja, háskólarnir séu undirfjármagnaðir og stuðnings- og hvatakerfið fyrirtækja ekki samkeppnishæft.

Katrín Dóra Þorsteinsdóttir forstöðumaður hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá SI fór yfir tölfræði en aðsókn nemenda í tækni- og raunvísindanámi hefur dregist saman frá árunum 2000-2001 en er þó aðeins á uppleið aftur. Verið er að vinna að nokkrum áhugaverðum verkefnum innan SI með það að markmiði að hvetja ungt fólk á öllum skólastigum til að kynna sér og sækja nám innan tækni og raunvísinda enda eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu á þessum sviðum út um allan heim.

Jón Ingi Björnsson framkvæmdastjóri Trackwell, Sandra Björg Axelsdóttir hjá Nýherja og Albert Arnarsson hjá Marel deildu reynslu sinni með fundargestum um hvernig þau stæðu að þvi að að fá sérfræðinga til starfa og þeirri miklu áskorunum sem það væri í dag.

Fundargestir voru almennt sammála um mikilvægi þess að deila með sér reynslu þrátt fyrir að oft væri verið að slást um sérfræðingana. Það væri sameiginlegt langtímaverkefni að fjölga í hópnum þannig að meiri þekking væri til skiptanna. Ýmis skammtímaverkefni þarf nauðsynlega að vinna að samhliða enda ljóst að án fleiri hæfileikaríkra sérfræðinga verður enginn vöxtur í þessum greinum.

Um 25 manns mætti á fundinn og sköpuðust miklar og góðar umræður um hvaða áherslur fyrirtækin þurfa að leggja til að betur gangi að fá sérfræðinga bæði innlenda og erlenda til starfa í hugverka- og tæknigeiranum til að störfin flytjist ekki úr landi.