• Hús Samtaka Atvinnulífsins

13. jún. 2012

Vextir hækka áfram

Seðlabanki Íslands ákvað í dag að hækka vexti um 0,25 prósent. Bjarni Már Gylfason hagfræðingur SI segir þessa ákvörðun ekki koma á óvart í ljósi fyrri yfirlýsinga bankans og hagþróunar undanfarið. „Vissulega er verðbólga enn mikil og nauðsynlegt að reyna að bregðast við henni. Efnahagsbatinn er þokkalegur og dregið hefur úr atvinnuleysi. Hins vegar eru enn veikleikamerki í hagkerfinu. Fjárfesting eykst ekki nógu mikið en í fyrra var hún 14% af landsframleiðslu. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var hún aðeins 12,4% af landsframleiðslu.

Einkaneyslan drífur efnahagsbatann áfram en þyrfti í auknum mæli að byggjast á vaxandi fjárfestingu. Hækkandi vextir vinna gegn þessu. Ekki má heldur gleyma að lántökukostnaður atvinnulífsins er afar mikill vegna eiginfjárkröfu bankanna. Ég tel mikilvægt að eiginfjárhlutföll bankanna lækki þannig að þörf þeirra fyrir háan vaxtamun minnki“, segir Bjarni.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að óvissa í efnahagsmálum hafi aukist að undanförnu, ekki síst vegna fjármálakreppunnar á meginlandi Evrópu. Peningastefnan gæti því þurft að bregðast við atburðum sem hefðu umtalsverð áhrif á hagvöxt og verðbólgu hér á landi. Bjarni segist túlka þetta sem svo að bankinn kynni að lækka vexti ef hagvaxtahorfur hér versna skyndilega en hugsanlega þannig að hækka þyrfti vexti ef krónan færi að veikjast. „Ég tel að þessi óvissa hefði kallað á óbreytta vexti. Ekki má heldur gleyma að verðbólga minnkaði talsvert í maí þótt horfur séu á að verðbólgumarkmið náist ekki bráð“.


Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.