Fréttasafn  • kjarnafæði fær d vottun

24. ágú. 2012

Kjarnafæði hlýtur D - vottun

Kjarnafæði hefur staðist úttekt á fyrsta þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D-vottun.

D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Í því felst að rekstur fyrirtækis er gerður skilvirkari. Fyrirtækið fer í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind. Við þetta eykst framleiðni og fyrirtækin skila meiri hagnaði.

Kjarnafæði var stofnað þann 19. mars 1985 af bræðrunum Eiði og Hreini Gunnlaugssonum. Í upphafi fór starfsemi fyrirtækisins fram í litlu húsnæði og var aðaláherslan lögð á að framleiða pizzur og hrásalat.

Árið 1987 flutti fyrirtækið í núverandi húsnæði að Fjölnisgötu 1 og 1993 festi Kjarnafæði kaup á húsnæði á Svalbarðseyri og flutti stóran hluta af starfsemi sinni þangað.

Árið 2002 stofnaði Kjarnafæði í samvinnu við HB Granda og Brim fiskvinnslufyrirtækið Norðanfisk sem býður upp á breiða línu af frosnum fiski, fiskafurðum og svo reyktum og gröfnum laxi.

Tveimur árum síðar stofnaði Kjarnafæði ásamt samlokugerðinni Júmbó, salat- og sósugerðina Nonna litla. Sama ár eignaðist Kjarnafæði líka hlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga.

Árið 2005 eignaðist Kjarnafæði liðlega þriðjungs hlut í nýju félagi sem stofnað var um rekstur sláturhúss og kjötvinnslu Sölufélags Austur Húnvetninga á Blönduósi.

Um 130 manns hjá Kjarnafæði og hafa margir þeirra starfað þar allt frá fyrstu árum fyrirtækisins.

Kjarnafæði framleiðir flestar þær afurðir úr íslensku gæðakjöti, sem í boði eru á íslenskum neytendamarkaði. Afurðir úr reyktu og söltuðu kjöti má telja sem sérgrein fyrirtækisins en auk þess framleiðir fyrirtækið fjölda kjötvara, bæði lítið unnið og meira unnar s.s. pylsur, álegg og búðinga af ýmsu tagi. Kjötiðnaðarmeistarar fyrirtækisins hafa hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir færni sína.

Kjarnafæði selur framleiðslu sína um land allt og hefur náð mjög góðri fótfestu á markaðinum. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru fjölmargir og má þar helst nefna stórmarkaðina, kaupfélög, aðrar verslanir, veitingahús og veisluþjónustur, sem og stór og smá mötuneyti.

Á myndinni má sjá Eðvald Sveinn Valgarðsson og Jóhann Rúnar Sigurðsson taka við vottuninni.