Fréttasafn



  • Hjartarvernd

31. ágú. 2012

Hjartabrauð fyrir heilsuna

Landssamband bakarameistara (LABAK) og Hjartavernd taka saman höndum um að stuðla að heilsusamlegri brauðneyslu þjóðarinnar. Markmiðið með samvinnu LABAK og Hjartaverndar er að vekja athygli á hollustu heilkornabrauða og mikilvægi þess að draga úr salt- og sykurneyslu.

Félagsmenn LABAK munu hafa á boðstólum Hjartabrauð sem er alfarið bakað úr möluðu heilkorni og uppfyllir öll næringarskilyrði skrárgatsins, þ.e. inniheldur mikið af trefjum en lítið salt og sykur. Brauðið verður auðkennt með merki Hjartaverndar.

Sala á Hjartabrauðinu hefst laugardaginn 1. september í bakaríum innan Landssambands bakarameistara. Sextíu krónur af hverju seldu brauði renna til Hjartaverndar og verður söfnunarfénu varið til kaupa á nýju ómtæki sem verður notað til rannsókna.

Átakinu var formlega ýtt úr vör í húsakynnum Hjartaverndar að Holtasmára 1 í Kópavogi í hádeginu í dag.

Það er við hæfi að hefja sölu á brauðinu í septembermánuði sem er tileinkaður hjartavernd í heiminum. Sú hjartavernd mun ná hámarki á alþjólega hjartadaginn 29. september með ýmsum viðburðum fyrir börn og fullorðna í tilefni dagsins.

Í heilkorni eru allir hlutar kornsins malaðir saman og þess vegna er það ríkt af mörgum mikilvægum næringar- og hollustuefnum. Í hýðislögum eru trefjar og vítamín, steinefni og snefilefni og í kíminu hollar olíur og vítamín. Brauðvörur úr heilkorni búa því yfir margvíslegum eiginleikum sem eru góðir fyrir heilsuna. Heilkornavörur eru mettandi og örva meltinguna.