Fréttasafn



  • Vernd vöruheita

4. sep. 2012

Nauðsynlegt að sett verði löggjöf um vernd vöruheita á Íslandi

Samtök iðnaðarins, Samtök mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði stóðu fyrir morgunverðarfundi um landfræðilegar merkingar á Grand Hótel Reykjavík í morgun.

Á fundinum kom glögglega fram nauðsyn þess að farið sé að vinna af fullri alvöru í þessum málaflokki og að sett verði löggjöf um vernd landfræðilegra merkinga á Íslandi eigi íslenskar útflutningsvörur að geta aðgreint sig á erlendum mörkuðum.

Guðni Ágústsson, formaður SMK opnaði fundinn og afhenti Orra Haukssyni, framkvæmdastjóra SI fundarstjórn. Sigurgeir Þorgeirsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri ávarpaði fundinn í stað Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem forfallaðist. Upplýsti Sigurgeir að í ráðuneytinu stæði til að skipa nefnd til að undirbúa löggjöf um þessi mál á allra næstu dögum.

Einar Karl Haraldsson höfundur nýútkominnar skýrslu vernd vöruheita kynnti helstu niðurstöður hennar. Tilgangur skýrslunnar er að gefa yfirlit um stöðu landfræðilegra merkinga á heimsvísu og leita vísbendinga um framtíðarþýðingu þeirra í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Löggjöf um vernd vöruheita er mismunandi eftir heimshlutum. Þannig er t.d. löggjöf ESB að einhverju leyti frábrugðin löggjöf Bandaríkjanna sem enn er frábrugðin löggjöf Ástralíu svo nokkuð sé nefnt. Eðlilegast væri að Íslendingar tækju mið af löggjöf ESB líkt og Norðmenn hafa gert en Einar benti Norðmenn hafa verið einstaklega duglegir að ná fram verndun á ýmsum norskum vöruheitum.

Einar segir íslensk vörumerki eiga á hættu að vera tekin upp af öðrum sem geri nafnið að almennt lýsandi heiti og nefndi skyr sem dæmi. Þá geti íslenskir framleiðendur ekki náð fram aðgreiningu og erfiðara verður að auka verðmæti vörunnar. Innlend löggjöf um vernd vöruheita er forsenda þess að semja um vernd íslenskra vöruheita á erlendum mörkuðum. Slíkir samningar munu einnig hafa í för með sér að Íslendingar skuldbinda sig til að viðurkenna vernd vöruheita frá þeim löndum sem samið er við. Einar telur að löggjöf um vernd landfræðilegra merkinga á Íslandi geti styrkt stöðu útflutningsafurða og haft góð áhrif á innlenda framleiðslu.

Glærur Einars Karls

Skýrsla um Vernd vöruheita

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu sagði stuttlega frá matvæla og sjávarútvegs fagráðum Íslandsstofu. Í stefnumarkandi umræðum þessara fagráða, sem hafa með matvælaframleiðslu að gera, hafa upprunamál og vottun skipað stóran sess. Reyndar svo stóran sess að fagráð sjávarútvegs hefur mótað sérstakt markaðsverkefni, Iceland Responsible Fisheries, sem öll greinin stendur að.

Þá fjallaði Jón um aðgreiningu á markaði og mikilvægi þess að framleiðendur ákvarði hvernig þeir ætli að aðgreina sig og að vanda undirbúning áður en farið er að stað í markaðssetningu.

Hann veitti einnig innsýn í hugmyndafræðina að baki kynningarstarfi Íslandsstofu sem byggir á því að láta upplifun erlendra gesta móta ímyndina og hvernig slík nálgun getur nýst í markaðsstarfi fyrir íslensk matvæli.

Glærur Jóns

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands fjallaði um mikilvægi verndar vöruheita fyrir íslenskan landbúnað. Hann sagði það vilja bænda að skjóta fleiri stoðum undir vernd vöruheita íslenskra landbúnaðarvara en ítrekaði mikilvægi þess að allar leikreglur séu skýrar. Mikill vilji er meðal hinna ýmsu búgreina innan bændasamtakanna að vinna nánar saman að markaðssetningu. Telur hann vernd vöruheita muni efla íslenska búvöruframleiðslu og sölu á afurðum bæði hér heima og erlendis. 

Glærur Haraldar