Fréttasafn  • SME2012

9. okt. 2012

SME Week helguð frumkvöðlastarfi kvenna

Undanfarin þrjú ár hefur ein vika á ári verið helguð nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum í Evrópu undir yfirskriftinni SME Week eða evrópska fyrirtækjavikan. Í ár er vikan tileinkuð frumkvöðlastarfi kvenna þar sem áhersla er lögð á menntun, fjármögnun, fjárfestingar, tengslanetið og alþjóðavæðingu eða svo kölluð „born global“ fyrirtæki. Vilborg Einarsdóttir, frumkvöðull og einn af aðaleigendum fyrirtækisins Mentor er talsmaður vikunnar í ár fyrir Íslands hönd.

 

Frumkvöðlar eru framtíðin

Í ár hefur verið ákveðið að bjóða öllum áhugasömum á ráðstefnu í Salnum í Kópavogi undir yfirskriftinni Frumkvöðlar eru framtíðin. Efni ráðstefnunnar er sniðið að þörfum allra frumkvöðla og hagsmunaaðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á Íslandi.   Á stokk stíga reynslumiklar konur sem búa yfir ólíkri og fjölbreyttri reynslu á því ferli sem frumkvöðlar þurfa að ganga í gegnum við stofnun og rekstur á eigin fyrirtæki. Á ráðstefnunni verður leitast við að svara spurningum í tengslum við alþjóðavæðingu fyrirtækja, fjárfestingarmat, nálganir og aðferðir við fjármögnun og mikilvægi tengslanetsins bæði í innlendu og erlendu samhengi svo fátt eitt sé nefnt. Á ráðstefnunni eru tveir og tveir frumkvöðlar úr ólíkum áttum leiddir saman og þeir fengnir til að fjalla um málefni sem er þeim sérstaklega hugleikið. Ráðstefnan verður haldin fimmtudaginn 18. október frá kl. 9:30 – 12:00. Skráning fer fram á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands: www.nmi.is en þar er einnig að finna upplýsingar um dagskrá rástefnunnar.

Vilborg er talsmaður evrópsku fyrirtækjavikunnar

Vilborg Einarsdóttir er talsmaður evrópsku fyrirtækjavikunnar í ár. Hún kemur til með að deila reynslu sinni í pallborðsumræðu í Brussel miðvikudaginn 17. október þar sem fjöldi reynslumikilla frumkvöðla kemur saman. Vilborg er framkvæmdastjóri og einn af aðaleigendum Mentors sem stofnað var árið 2000. Mentor hefur jafnt og þétt verið að auka árangur í íslensku skólastarfi með vöru sinni og þjónustu. Fyrirtækið hefur á síðustu árum fært út kvíarnar og er nú notað í fjórum löndum auk Íslands. Talsmenn evrópsku fyrirtækjavikunnar eru valdir að teknu tilliti til árangurs þeirra bæði á heimamarkaði og á erlendum mörkuðum og þykja því verðugar fyrirmyndir fyrir þema ársins. Vilborg er verðug fyrirmynd Íslands í ár.

Evrópska fyrirtækjavikan

Evrópska fyrirtækjavika (European SME week) er haldin á vegum framkvæmdastjórnar ESB í  37 Evrópulöndum dagana 15.- 21. október. Markmið vikunnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir fyrirtæki og frumkvöðla á Íslandi. Samstarfsaðilar framkvæmdastjórnar ESB og framkvæmdaraðilar vikunnar á Íslandi eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís, Íslandsstofa, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins.

Nánari upplýsingar og skráning