Fréttasafn  • Sme-radstefna2012

19. okt. 2012

SME Week helguð frumkvöðlastarfi kvenna

Ein vika á ári undanfarin þrjú ár hefur verið helguð nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum í Evrópu undir yfirskriftinni SME Week eða evrópska fyrirtækjavikan. Í ár var vikan tileinkuð frumkvöðlastarfi kvenna með áherslu á menntun, fjármögnun, fjárfestingar, tengslanetið og alþjóðavæðingu eða svo kölluð „born global“ fyrirtæki.

 

Frumkvöðlar eru framtíðin

Ráðstefna í tilefni af evrópsku fyrirtækjavikunni var haldin í Salnum í Kópavogi í gær undir yfirskriftinni Frumkvöðlar eru framtíðin. Efnið var sniðið að þörfum allra frumkvöðla og hagsmunaaðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á Íslandi. Reynslumiklar konur stigu á stokk, þær búa yfir ólíkri og fjölbreyttri reynslu á því ferli sem frumkvöðlar þurfa að ganga í gegnum við stofnun og rekstur eigin fyrirtækis. Leitast var við að svara spurningum í tengslum við alþjóðavæðingu fyrirtækja, fjárfestingarmati, nálganir og aðferðir við fjármögnun og mikilvægi tengslanetsins bæði í innlendu og erlendu samhengi.

Vilborg er talsmaður evrópsku fyrirtækjavikunnar

Vilborg Einarsdóttir, frumkvöðull og einn af aðaleigendum og jafnframt framkvæmdastjóri fyrirtækisins Mentor var talsmaður evrópsku fyrirtækjavikunnar í ár fyrir Íslands hönd. Í pallborðsumræðu í Brussel miðvikudaginn 17. október deildi hún reynslu sinni þar sem fjöldi frumkvöðla var saman kominn. Mentor hefur jafnt og þétt verið að auka árangur í íslensku skólastarfi með vöru sinni og þjónustu. Fyrirtækið hefur á síðustu árum fært út kvíarnar og er nú notað í fjórum löndum auk Íslands. Talsmenn evrópsku fyrirtækjavikunnar eru valdir að teknu tilliti til árangurs þeirra bæði á heimamarkaði og á erlendum mörkuðum og þykja því verðugar fyrirmyndir fyrir þema ársins.

Evrópska fyrirtækjavikan

Evrópska fyrirtækjavika (European SME week) er haldin 15. – 21. Október  á vegum framkvæmdastjórnar ESB í 37 Evrópulöndum. Markmið vikunnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir fyrirtæki og frumkvöðla á Íslandi. Samstarfsaðilar framkvæmdastjórnar ESB og framkvæmdaraðilar vikunnar á Íslandi eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís, Íslandsstofa, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins.