Fréttasafn  • Á aðalfundi SÍL 2012

26. okt. 2012

Ágústa Guðmundsdóttir, Ensímtækni nýr formaður SÍL

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja hélt aðalfund félagsins og þá tók við formennsku félagsins Ágústa Guðmundsdóttir, Ensímtækni. Meðstjórnendur hennar eru  Ása Brynjólfsdóttir hjá Bláa lónið heilsuvörur og Hörður Kristinsson hjá Matís. Jóhannes Gíslason framkvæmdastjóri Genís gengur úr stjórn en hann hefur starfað sem formaður undanfarin þrjú ár. Eru honum þökkuð vel unnin störf.
 

Fundurinn var haldinn hjá fyrirtækinu ArcticLas sem bíður þjónustu við lyfja, matvæla og líftækniiðnað. Fyrirtækið hefur fyrsta flokks aðstöðu til dýratilrauna og úrvinnslu þeirra. Miklar kröfur eru gerðar til fyrirtækja á þessu sviði og hefur ArcticLas náð góðum árangri í markaðssetningu á þjónustu sinni á alþjóðamarkaði. Ánægjulegt er að innlendum viðskiptavinum hefur fjölgað undanfarið og er það til marks um grósku í rannsóknum og þróunarvinnu á sviði líftækni.

Meðal verkefna ársins var þátttaka í mótun atvinnustefnu fyrir Ísland þar sem tækifæri og stefnumál líftækni voru skoðuð. SÍL kom einnig að ráðstefnu Marine Algea Network sem haldin var á Íslandi í maí en mikill áhugi er á nýtingu líftækni við þörungavinnslu. Aðstæður hérlendis virðast áhugaverðar fyrir uppbyggingu á því sviði.

Samtök voru stofnuð árið 2004 og eru að ljúka áttunda starfsári sínu. SÍL er starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins og eru vettvangur þar sem unnið er að hagsmuna- og stefnumálum líftæknifyrirtækja og eflingu líftækniiðnaðar á Íslandi. Líftækni er grunntækni sem gengur þvert á hefðbundnar atvinnugreinar og fyrirtæki í hópnum vinna á ólíkum mörkuðum, t.d. orkutækni, lyfja- og matvælaiðnaði.