Fréttasafn



  • Boxið5

30. okt. 2012

BOXIÐ - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna haldin í annað sinn

Næstkomandi laugardag, 3. nóvember, fer BOXIÐ - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, fram í Háskólanum í Reykjavík en markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði.

Fyrir keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema.

Fjórtán skólar víðsvegar af landinu sendu lið í keppnina. Þau tóku þátt í forkeppni þar sem átta efstu liðin komust áfram. Það eru: Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri, Verslunarskóli Íslands, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Iðnskólinn í Hafnarfirði.

Hvert lið er skipað fimm einstaklingum. Keppnin felst í þrautabraut með sex stöðvum og fara liðin, sem hvert er skipað fimm einstaklingum, á milli brauta og leysa ólíkar þrautir á hverjum stað. Þrautirnar sjálfar reyna bæði á hugvit og verklag en þær eru útbúnar af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins í samstarfi við fræðimenn Háskólans í Reykjavík.

Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna eru ÍAV, Marel, Skema, Gæðabakstur, Actavis, Járnsmiðja Óðins og Marorka.

BOXIÐ hefst kl. 10.00 og stendur til 16.00 laugardaginn 3. nóvember. Háskólinn í Reykjavík er opinn á keppnisdag Boxins og eru áhugasamir velkomnir að fylgjast með liðunum leysa þrautirnar.