Fréttasafn  • Actavis

5. nóv. 2012

Actavis sameinast Watson undir merkjum Actavis

Þann 1. nóvember 2012 tilkynnti Watson Pharmaceuticals, Inc. að það hefði lokið við kaup á Actavis Group. Með kaupunum verður til þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi með um 6 milljarða evra tekjur á ári. Fyrirtækið mun starfa undir heitinu Actavis.

Við sameininguna verður til öflugt fyrirtæki með starfsemi í yfir 60 löndum í fimm heimsálfum á mörkuðum með yfir fimm milljarða neytendur. Alheimshöfuðstöðvar fyrirtækisins og fyrir Bandaríkin verða í Parsippany, New Jersey í Bandaríkjunum, en alþjóðlegar höfuðstöðvar verða í Zug í Sviss. Hjá fyrirtækinu starfa 17.000 manns.

Samanlagt verður fyrirtækið með eitt mesta vöruúrval í samheitalyfjageiranum; meira en 750 lyf sem fást í 1.700 mismunandi samsetningum og styrkleikum. Vöruframboð á markaði samanstendur af öllum helstu lyfjaformum á borð við lyf með breyttum losunarhraða, töflur og hylki, krem og smyrsli, lyfjaplástra, vökva, hlaup og stungulyf.

Framleiðslugeta á heimsvísu er yfir 40 milljarða einingar sem gerir Actavis kleift að vera í forystu meðal samheitalyfjafyrirtækja í þjónustu við viðskiptavini um allan heim. Sem stendur er verið að þróa 180 vörur í Bandaríkjunum og um allan heim bíða tvö þúsund markaðsleyfi samþykktar. Auk þess hefur Actavis bolmagn til þróunar og framleiðslu á líftæknilyfjum og er auk þess í samstarfi við leiðandi alþjóðlega aðila á sviði líftæknilyfja til krabbameinslækninga.

Ekki verða marktækar breytingar á starfseminni á Íslandi. Sameinað fyrirtæki mun hafa meira en 760 starfsmenn hér á landi, sem styðja við starfsemi þess á heimsvísu með störfum við framleiðslu, þróun, skráningu, sölu- og markaðsmál og gæðamál, svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem mikilvægur hluti fjármálasviðs móðurfyrirtækisins verður á Íslandi. Ekki verða breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins hér á landi og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir mun áfram gegna starfi forstjóra.

Dótturfyrirtæki Actavis, Medis, sem sér um sölu á lyfjum og lyfjahugviti til þriðja aðila, sameinast sambærilegu dótturfyrirtæki Watson, Specifar, á Grikklandi. Sameinuð fyrirtæki munu starfa undir merkjum Medis, yfirstjórn verður á Íslandi og forstjóri Valur Ragnarsson.