Fréttasafn  • Marel-faer-Markadsverdlaunin-2012

8. nóv. 2012

Marel valið Markaðsfyrirtæki ársins 2012

Íslensku Markaðsverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin fyrir hönd ÍMARK og er þetta í 22. sinn sem verðlaunin eru veitt.

Auk Marel voru Mjólkursamsalan og Ölgerðin tilnefnd til Íslensku Markaðsverðlaunanna. Þessi fyrirtæki hafa sýnt frábæran árangur hvert á sínu sviði og mjög faglegt markaðsstarf.

Verðlaunahafinn Marel er fyrirtæki sem vart þarf að kynna þó svo aðeins lítill hluti starfseminnar fari fram hér á landi en Marel starfrækir skrifstofur í 30 löndum og er með umboðsmenn í yfir 100 löndum.

Markaðsstefna fyrirtækisins tekur tillit til margra þátta svo sem eins og breyttrar neytendahegðunar, breytinga á neyslumynstri, þróun matvælaframleiðslu á ólíkum mörkuðum, samkeppni, þarfa viðskiptavina, hagsmuna starfsmanna og annarra hagsmunahópa.

Til að fylgja þessu eftir er Marel með 53ja manna markaðsteymi sem starfar á 25 stöðum um allan heim. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa en fyrirtækið er númer eitt á öllum helstu mörkuðum sem það starfar á. Það sem hefur hjálpað einna helst til við að ná þessum árangri er sterkt og vel skipulagt markaðsstarf fyrirtækisins. Marel er vel að þessum verðlaununum komið.

Liv Bergþórsdóttir framkvæmdastjóri Nova var við sama tækifæri valinn Markaðsmaður ársins 2012.