Fréttasafn  • Food and Fun 2012

22. jan. 2013

Matarhátíðin Food & Fun í Reykjavík 2013

Hin vinsæla og árlega matarhátíð Food & Fun verður haldin í Reykjavík dagana 27. febrúar – 3. mars 2013. Þetta verður í 12 sinn sem hátíðin er haldin. 

Að venju munu meistarakokkar frá Ameríku og Evrópu koma til landsins og hafa umsjón með matreiðslu á bestu veitingahúsum Reykjavíkur í samvinnu við íslenska matreiðslumeistara. Veitingastaðirnir bjóða fjögurra rétta sælkeramáltíð eins og undanfarin ár á sama verði á öllum stöðum.  

Keppt verður um „Food & Fun Chef of the Year“ verðlaunin sem eru orðin vel þekkt í sælkeraheiminum.   

Food and Fun skipar stóran sess í að kynna íslensk matvæli fyrir erlendum stórkokkum og er hátíðin orðin mikilvægur vettvangur til að kynna sælkeramat frá Íslandi.

Hátíðin hefur fengið umtalsverða umfjöllun í erlendum fjölmiðlum og á meðal veitingamanna en á undanförnum árum hafa um 200 erlendir matreiðslumeistarar og fjöldi annarra matargæðinga og fjölmiðlamanna sótt hátíðina heim. Til að mynda valdi hið virta tímarit National Geographic Food and Fun sem eina merkustu matarhátíð í sælkeraheiminum árið 2011. 

Í kjölfar hátíðarinnar 2012 birtust umfjallanir í stórum matartímaritum eins og Los Echos í Frakklandi, Gastro Magasin í Danmörku og Canibales á Spáni, einnig birtust greinar í þekktum rússneskum tímaritum en þeir hafa sýnt mikinn áhuga á hátíðinni undanfarin ár.  

Samtök iðnaðarins eru sem fyrr umsjónaraðili Food and Fun í samráði við viðburðarfyrirtækið Main Course ehf sem er eigandi hátíðarinnar ásamt Icelandair.

Markmið hátíðarinnar í ár er að gera hana enn sýnilegri í samfélaginu og tengja hana fleiri skemmtilegum uppákomum sem tengjast íslenskum mat og matarmenningu og tilkynnt verður um síðar. Ný vefsíða hátíðarinnar verður opnuð í vikunni þar sem notkun samfélagsmiðla mun gera fólki kleift að senda inn myndir af stemningunni meðan á hátíðinni stendur.  

Aðalbakhjarlar hátíðarinnar eru SI, Icelandair og Reykjavíkurborg en að auki kemur Íslandsstofa og fjöldi annara aðila og birgja að hátíðinni á margvíslegan hátt eins og undanfarin ár. Á síðasta ári skrifuðu SI, Icelandair og Reykjavíkurborg undir 3ja ára samstarfssamning í því skyni að tryggja áframhaldandi matargleði í Reykjavík þessa daga fyrir Íslendinga og þann sístækkandi hóp erlendra ferðamanna sem sækja hátíðina.