Fréttasafn



  • Menntadagur 2013

23. jan. 2013

Framhald samkomulags um eflingu grunnmenntunar í raunvísindum og tækni staðfest á Menntadegi iðnaðarins

Fjölmenni var á Menntadegi iðnaðarins sem fór fram á Grand Hótel Reykjavík í morgun. Yfirskrift málþingsins var Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni. Á þinginu var rætt um leiðir til að auka áhuga nemenda á raunvísindum og tækni og aðgerðáætlunin GERT kynnt, þá var kynnt ný könnun um þörf atvinnulífsins á menntuðu starfsfólki.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra opnaði þingið og gerði góða grein fyrir þeim verkefnum sem ráðuneytið vinnur að.

Kynning á GERT

Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni - GERT - er heiti aðgerðaáætlunar Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að auka áhuga grunnskólanemenda á raunvísindum og tækni. Markmiðið með áætlunni er að brúa það bil sem er milli núverandi stöðu og framtíðarþarfa nemenda og vinnumarkaðar. Verkefnið hófst á síðasta ári með því að settur var á stofn starfshópur þessara aðila um aðgerðir til að auka áhuga 10-15 ára nemenda á raunvísindum og tækni. Hópurinn kortlagði stöðu raunvísinda- og tæknimenntunar m.t.t. frammistöðu nemenda, viðhorf og mat kennara og forspár um þörf fyrir raunvísinda- og tæknimenntað fólk. Jafnframt var sett fram aðgerðaáætlun og tillögur að næstu skrefum.  

Dr. Elsa Eiríksdóttir lektor á Menntavísindasviði HÍ og höfundur bakgrunnsskýrslu aðgerðaáætlunarinnar kynnti skýrsluna. Þar kemur meðal annars fram að ásókn í framhalds- og háskólanám á sviðum raunvísinda og tækni hefur hlutfallslega dregist saman hérlendis, þó að ásókn hafi almennt aukist í framhaldsnám. Þrátt fyrir áhuga nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á iðn- og verknámi, þá velja flestir sér að fara í bóklegt nám.

Katrín D. Þorsteinsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá SI gerði grein fyrir aðgerðaáætluninni sem byggir á fjórum skilgreindum lykilmarkmiðum sem eru að auka samráð hagsmunaaðila og stjórnvalda og auka rannsóknir á þessum vettvangi. Auka áhuga nemenda á þessu námi, til dæmis með nýstárlegu kynningarefni. Bæta hæfni kennara og bjóða aukin símenntunartækifæri og fjölbreyttari kennsluhættir og tengsl við atvinnulífið.  

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins undirrituðu samning um framhald verkefnisins. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri og skipaður samvinnuvettvangur.

Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri Mennta- og menningarmálaráðuneytis,  Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jón Torfi Jónasson forseti Menntavísindasviðs HÍ sögðu frá væntingum sínum til verkefnisins og óhætt er að segja að góðar vonir eru um að það muni skila sér í bættu menntakerfi.

Menntakönnun aðildarfélaga SA

Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins kynnti grunnniðurstöður nýrrar könnunar meðal aðildarsamtaka SA á þörf fyrirtækja fyrir menntað starfsfólk. Fyrstu niðurstöður benda eindregið til að mikil þörf sé hjá fyrirtækjum að ráða fólk með margvíslega iðn- og starfsmenntun. Samkvæmt könnuninni hyggjast 45% fyrirtækja sem tóku þátt ráða einstakling með iðn- og starfsmenntun. Í nokkrum tilfellum þurfa einstök fyrirtæki yfir fimmtán starfsmenn með slíka menntun. Ef þessi niðurstaða er heimfærð upp á hagkerfið í heild sinni má gróflega áætla að þörfin sé yfir 3.000 á næstu 12 mánuðum. Bjarni segir ljóst að erfitt verði að mæta þessari þörf og ef ekki takist að fjölga fólki með þessa menntun er hætt við að það haldi aftur af vexti atvinnulífsins. Í könnuninni er einnig lagt mat á þörf fyrir háskólamenntun og ófaglærða. Um  35% fyrirtækja hyggjast bæta við sig háskólamenntuðum starfsmönnum næstu 12 mánuðum en 30% ætla bæta við sig ófaglærðu fólki.

Að erindum loknum stýrði Orri Hauksson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fyrirspurnum og umræðum gesta og var samhljómur meðal fundarmanna um að nauðsynlegt væri að halda áfram víðtæku samráði atvinnulífs, stjórnvalda og skóla til að gera menntakerfið sem best úr garði.

Svana H. Björnsdóttir formaður Samtaka iðnaðarins sleit fundi og notaði tækifærið til að þakka samstarfsaðilum fyrir að taka þátt í þessu verðuga verkefni. Hún ítrekaði áherslu samtakanna á að starfsmenntun verði efld og að komið verði til móts við þörf vinnumarkaðsins á menntuðu starfsfólki, sérstaklega á sviði verk- og tæknimenntunar. Því þannig sé stuðlað að aukinni framleiðni og verðmætasköpun á Íslandi.

Fundarstjóri var Finnur Oddsson, aðstoðarforstjóri Nýherja. 

Smellið hér til að sjá upptöku frá málþinginu