Fréttasafn  • sykur

1. mar. 2013

Sykurskattur tekur gildi í dag

Í dag taka gildi lög sem Alþingi samþykkti rétt fyrir jól og fela í sér hækkanir á gjöldum á margvíslegum matvælum. Um er að ræða hækkun á vörugjöldum á sykruðum vörum. Búast má við að þessi hækkun leiði til hækkunar á matvöruverði og muni koma fram í vísitölu neysluverðs fljótlega.

Stjórnvöld ætla sér að ná í um 3 milljarða með tekjum af vörugjöldum á matvæli á árinu, þar af eru um 800 milljónir að bætast við vegna hækkana sem taka gildi í dag.

Gjöld á hreinum sykri hækka um 150kr á kvert kíló og á aðrar vörur í hlutfalli við sykurinnihald. Þar á meðal eru margar daglegar neysluvörur sem ekki hafa áður borið vörugjald s.s. margvíslegar bakaríisvörur, morgunkorn og bragðbættar mjólkurvörur svo eitthvað sé nefnt.

Ennfremur gera lögin ráð fyrir mikilli breytingu á innheimtu vörugjaldsins sem felur í sér umtalsvert flækjustig fyrir marga framleiðendur og þar af leiðandi kostnaðarauka. Enn er margt óljóst um framkvæmd nýju laganna.