Fréttasafn



  • Nemakeppni-kornax2013

20. mar. 2013

Vel heppnuð Nemakeppni Kornax

Hin árlega Nemakeppni Kornax var haldin með glæsibrag í húsnæði Hótel- og matvælaskólans 14.-15. mars sl. Níu nemendur frá sjö bakaríum öttu kappi í þessari skemmtilegu keppni sem haldin er af Kornax í samstarfi við Klúbb bakarameistara, Landssamband bakarameistara og Hótel- og matvælaskólann. Verkefni nemanna er að útbúa glæsilegt veisluborð sem samanstendur af ýmsu brauðmeti og skrautstykkjum.

Keppnin nýtur vaxandi vinsælda og er óhætt að segja að vel hafi tekist til með baksturinn í ár. Dómnefnd tók sér langan umhugsunartíma og var rafmögnuð spenna í loftinu á lokahófi keppninnar þegar úrslit voru kunngjörð. Sigurvegari Nemakeppninnar í ár kemur frá Topp Tertum og Brauð og heitir Íris Björk Óskarsdóttir. Íris hlaut að launum eigna- og farandbikar auk ferðavinnings. Ennfremur veitir eitt af úrslitasætum keppninnar rétt til þátttöku í Evrópukeppni bakaranema. Dómnefndina í ár skipuðu þau Daníel Kjartan Ármannsson Mosfellsbakarí, Rebekka Helen Karlsdóttir Brauða- og Kökugerðinni og Elías Þórisson Passion bakarí, sem öll eru fyrrum sigurvegarar keppninnar.

Það voru þeir Ásgeir Þór Tómasson frá Hótel- og matvælaskólanum og Þór Fannberg Gunnarsson frá Kornaxi sem höfðu veg og vanda af umsjón keppninnar.