Hafin bygging á 1300 nýjum íbúðum 2013
Samtök iðnaðarins stóðu nýverið fyrir talningu íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan er sú að íbúðir sem eru fokheldar og lengra komnar eru rúmlega 800 talsins og hafin er bygging á um 700 íbúðum til viðbótar sem eru skemur á veg komnar.
Meirihluti þessara 1300 íbúða sem farið verður af stað með 2013 eru stórar og dýrar eignir. Miðað við fjölda íbúða og byggingarstig telja Samtök iðnaðarins ótvírætt að þörf sé á íbúðum fyrir „fyrstu íbúða kaupendur“, þ.e. smærri og ódýrari eignir, án bílakjallara svo dæmi sé tekið. Allt of hátt lóðarverð hamlar aftur á móti byggingu þeirra.
Líta verður til þess að sala á húsnæði hefur verið dræm frá hruni og margir sem hafa haldið að sér höndum eru nú tilbúnir að kaupa, einnig eru stórir árgangar að koma nýir inn á markaðinn. Miðað við eðlilegt árferði þarf að byggja 1500 – 1800 íbúðir árlega. Allt frá hruni hafa íbúðabyggingar verið langt undir því viðmiði og því er mikil uppsöfnuð þörf á íbúðamarkaði sem m.a. birtist í háu leiguverði.
Þá þarf að hafa í huga að byggingartími íbúðar í fjölbýli er 18-24 mánuðir þannig að ljóst er að íbúðir í byggingu eru langt frá því að fullnægja þörf markaðarins.