Valka hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2013
Fyrirtækið Valka hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2013 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi 18. Apríl. Valka er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslu. Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku veitti verðlaununum viðtöku. Á Nýsköpunarþingi voru íslensk sprettfyrirtæki gerð að umfjöllunarefni og voru þrír fyrirlesarar fengnir til að segja frá hraðvaxta fyrirtækjum og stöðu íslenskra sprettfyrirtækja eða svokallaðra „gazella". Tæplega 300 manns sóttu þingið, sem haldið var á Grand hótel Reykjavík.
Valka ehf. var stofnað árið 2003 af Helga Hjálmarssyni verkfræðingi sem er jafnframt framkvæmdarstjóri fyrirtækisins en þar starfa nú 18 manns. Valka er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslu. Valka býður margs konar lausnir og búnað allt frá stökum vogum, innmötunarvélum og flokkurum til flæði- og skurðarlína og pökkunarkerfa. RapidFish hugbúnaður Völku er einfalt en öflugt framleiðslustjórnar- og pantanakerfi fyrir fiskvinnslur og sölufyrirtæki. Fyrirtækið hlaut viðurkenningu á Íslensku sjávarútvegssýningunni fyrir Aligner flokkarann sem flokkar og leggur flök og bita sjálfvirkt í kassa og á árinu 2011 seldi Valka svo flokkunarbúnað og pökkunarlínu fyrir heilan lax til Noregs og er það jafnframt stærsta einstaka sala fyrirtækisins, en verðmæti verkefnisins nam um 400 milljónum íslenskra króna. Öll samsetning á tækjum Völku fer fram innanhúss en aðkeypt smíði er að mestu leyti unnin af íslenskum verktökum.
Fiskbein fundin með nákvæmri röntgen tölvusjón
Valka hefur verið í stöðugri sókn og hlaut meðal annars Vaxtarsprotann 2012 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis og í fyrra var einnig sett upp hjá HB Granda fyrsta röntgenstýrða beinskurðarlínan frá Völku sem jafnframt er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Beinaskurðarlínan staðsetur fiskbein í fiskflökum með röntgen tölvusjón á afar nákvæman hátt og sker beingarðinn sjálfvirkt úr flökunum auk þessa sem búnaðurinn getur skorið flakið í bita. Valka hefur í samstarfi við HB Granda, Samherja og Nýfisk með stuðningi Rannís og Tækniþróunarsjóðs unnið í nokkur ár að þróun þessarar sjálfvirku beinaskurðarlínu. Línan hefur nú formlega verið markaðssett og eru miklar væntingar í fiskvinnslugeiranum til þessarar nýju tækni og rætt um stærsta skref í bolfiskvinnslu frá því að flæðilínur komu fyrst á markað. Nýja skurðarvélin – sem er sem fyrr segir sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum – verður sýnd í fyrsta skipti á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem hefst þann 23. apríl nk. og er búist við miklum áhuga á vélinni.
Nýsköpunarverðlaun Íslands
Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.