Fréttasafn



30. apr. 2013

FANFEST HÁTÍÐ CCP VEKUR ATHYGLI

RÚMLEGA 280.000 MANNS FYLGDUST MEÐ BEINNI ÚTSENDINGU ÚR HÖRPU

Tíu ára afmæli EVE heimsins fagnað í Reykjavík. Rúmlega hálf milljón manna spilar tölvuleikinn EVE Online. Gríðargóð umfjöllun fjölmiðla frá viðburðinum. 83 erlendir blaðamenn sóttu hátíðina. Áform CCP sem kynnt voru á Fanfest vekja athygli.

Mikil ánægja ríkir í herbúðum tölvuleikjaframleiðands CCP með nýafstaðna Fanfest hátíð sem er sú stærsta til þessa. Á hátíðinni var tíu ára afmæli EVE heimsins fagnað með gestum frá öllum heimshornum, alls um 2.000 erlendum gestum, og fyrirtækið kynnti margvíslegar nýjungar í þróun leikja sinna auk nýrra áforma. Alls mættu rúmlega 4.000 manns á hátíðina í ár.

Um 1.800 manns sóttu lykilfyrirlestur Hilmars Veigars Péturssonar, framkvæmdastjóra CCP, laugardaginn 27. apríl þar sem ýmis framtíðaráform fyrirtækisins voru kynnt undir heitinu CCP Presents!. Rúmlega fjörutíu þúsund manns fylgdust með fyrirlestrinum gegnum netið og sérstaka sjónvarpsstöð EVE heimsins, EVE TV, og vefsíðuna Twitchtv.com. Alls fylgdust 281.240 manns með útsendingum frá hátíðinni.  

Sérstakt útsendingarstúdíó EVE TV var sett upp í Hörpu þar sem viðtöl fóru fram alla helgina og sent var út beint frá ýmsum dagskrárliðum úr sölum Hörpunnar. Lokahnykkur hátíðarinnar - Party at the Top of the World tónleikarnir með Skálmöld, Retro Stefson, Z-Trip og fleirum – voru jafnframt sendir beint út gegnum EVE TV.

Harpan hefur ekki hýst jafn stóran viðburð of EVE Fanfest 2013 síðan Fanfest hátíðin fór fram í húsinu í fyrra. Vel tókst til við að koma yfirgripsmikilli dagskrá hátíðarinnar í húsinu, þó plássleysi hafi stundum þýtt að færri komust að en vildu á suma dagskárliði. Dagskrá hátíðarinnar samanstóð af rúmlega 100 dagskrárliðum (m.a.  fyrirlestrum, pallborðsumræðum, keppnum og tónleikum) sem fram fóru í 13 aðskildum rýmum í húsinu. Salirnir  Eldborg (Tranquility), Norðurljós (Singularity) og Kaldalón (Multiplicity) fengu ný nöfn fyrir helgina, nefnd eftir svæðum í EVE Online leiknum.  

ÁNÆGJA BLAÐAMANNA
Alls sóttu 83 erlendir blaðamenn og sjónvarpsmenn hátíðina frá 12 þjóðlöndum. Flestir eru þeir frá tímaritum og vefsíðum sem fjalla um tækni og tölvuleiki – og má má þarn nefna PC World, Eurogamer og Escapist - en einnig komu aðilar frá almennari fjölmiðlum á borð við BBC, Playboy og Die Zeit. Umfjöllun frá hátíðinni er þegar tekin að berast og ljóst að hátíðin sjálf, sem og þær tilkynningar sem CCP gerði á hátíðinni, hafa vakið verðskuldaða athygli. (sjá fyrir neðan)


EVE SJÓNVARSPÞÆTTIR OG AÐRAR TILKYNNINGAR
Fanfest hátíð CCP náði hámarki með lykilfyrirlestrinum CCP Presents! Eldborgarsalur Hörpu var smekkfullur á meðan fyrirlestrinum stóð, alls um 1.800 manns, þar af 83 erlendir blaðamenn. Yfir fjörtíu þúsund fylgdust jafnframt með á netinu gegnum EVE TV og Twitchtv.com. Á fyrirlestrinum tilkynnti Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, um ýmis framtíðaráform CCP ásamt öðrum starfsmönnum fyrirtækisins, meðal annars Jon Lander  og Brandon Laurino framleiðslustjórum EVE Online og DUST 514. Einnig komu á svið ýmsir gestir frá fyrirtækjum sem CCP á í samstarfi við, sem og Paola Antonelli sýningarstjóri MoMA safnsins í New York. 

Tilkynnt var um útgáfu á sérstakri viðhafnarútgáfu af EVE Online í tilefni tíu ára afmæli leiksins í ár. Úrslit kosninga til fulltrúarráðs spilara leiksins voru kunngerð og nýtt myndband, sem gerir tilurð EVE heimsins skil, var frumsýnt. Einnig var tilkynnt um útgáfu á EVE myndasögubók í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Dark Horse.

Stóru fréttirnar eru hins vegar að tilkynnt var um samstarf CCP og Baltasar Kormáks um gerð sjónvarpsþáttaseríu byggða á EVE heiminum. Einnig var tilkynnt um útgáfudag nýs leiks fyrirtækisins, DUST 514 sem undanfarið ár hefur aðeins verið aðgengilegur í prufuútgáfu. Leikurinn mun koma út 14. maí og geta þá allir handhafar PlayStation 3 leikjavéla í Norður-Ameríku, Evrópu og Eyjaálfu spilað nýja útgáfu af leiknum.

Alþjóðlegar fréttatilkynningar voru sendar út í kjölfar kynningarinnar og eru þær hér fyrir neðan.

·         EVE The Second Decade Collector's Edition

·         DUST 514 Launching on 5.14.2013

·         CCP & Dark Horse Team Up for EVE Comic and Sourcebook Projects

·         CCP Games Signs Deal to Develop EVE Universe Television Series with Baltasar Kormákur