Fréttasafn3. maí 2013

Orkueftirlitskerfi ReMake fer á markað í Bretlandi

ReMake Electric ehf. og InTouch IS hafa undirritað samstarfssamning um að vinna saman að því að koma eTactica orkueftirlitskerfinu frá ReMake á markað í Bretlandi. ReMake Electric þróar, framleiðir og markaðssetur eTactica orkueftirlitskerfið sem er einstakt í sinni röð í heiminum. Kerfið gerir fyrirtækjum mögulegt að fylgjast með kostnaði, álagi og notkun rafmagns niður á hvert öryggi með það að markmið að auka rekstraröryggi og ná fram skilvirkni og hagræðingu í rekstri.

Hilmir Ingi Jónsson, forstjóri og stofnandi ReMake Electric, er að vonum ánægður með samstarfssamninginn.„Við erum að sjá virkilega spennandi viðbrögð víða um heim með íslenska eTactica kerfinu okkar. Við erum í skýjunum með frábært samstarf  okkar við InTouch, sem að við teljum að sé hárréttur aðili til að koma okkar vörum og þjónustu á framfæri á jafn stórum markaði og Bretland er,“ segir Hilmir Ingi.

„Við sjáum mikil tækifæri í sölu á eTactica orkueftirlitskerfinu í Bretlandi. Með kerfinu geta fyrirtæki af öllum stærðum náð betri stjórn á orkunotkun sinni og gripið til aðgerða til að draga úr óskilvirkni í rekstri, “segir Matt Davies, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá  InTouch. „Eftirlit og stjórnun á nýtingu orku er orðin mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækja í Evrópu í dag og fyrirtækjum er beinlínis skylt að draga úr orkunotkun sinni og þar með losun á koltvísýringi. eTactica kerfið veitir stjórnendum þá yfirsýn sem þeir þurfa til að mæta þessum kröfum sem dregur úr líkum á því að fyrirtækin þurfi að greiða viðurlög eða sektir þegar fram í sækir.“ 

ReMake Electric hefur tekist afar vel að kynna eTactica orkueftirlitskerfið fyrir leiðandi aðilum á mörkuðum erlendis. ReMake var meðal annars með sýningarbás á einni stærstu tæknisýningu í heimi, Hannover Messe, fyrr í mánuðinum og vakti þar mikla athygli. Leiðandi aðilar í framleiðslu rafmagnsbúnaðar sýndu orkueftirlitskerfinu mikinn áhuga og þegar hafa á þriðja tug aðila óskað eftir því að koma á samstarfi um sölu á kerfinu á Norðurlöndum, Evrópu, Bandaríkjunum, Suður-Afríku og víðar.

„Við sjáum fram á spennandi tækifæri á mörkuðum erlendis þar sem eTactica er auðvelt í uppsetningu og sveigjanlegt í notkun. Við erum bjartsýn á framtíðina og verðum á næstu vikum komin á markað með vörur okkar frá Svíþjóð til Singapore,segir Hilmir Ingi.

 

Meðfylgjandi er mynd af undirritun samstarfssamningsins sem tekinn var í höfðustöðvum ReMake Electric. Á myndinni eru, frá hægra til vinstri: Hilmir Ingi Jónsson, forstjóri ReMake Electric, og Richard Hogg, aðstoðarmaður forstjóra InTouch.