Fréttasafn8. maí 2013

Brjóstabollur með kaffinu alla mæðradagshelgina

Landssamband bakarameistara stendur fyrir sölu á brjóstabollum í bakaríum um allt land dagana 9. – 12. maí til stuðnings við styrktarfélagið Göngum saman.

Fyrirtæki og einstaklingar eru hvattir til að bjóða upp á brjóstabollur með kaffinu alla mæðradagshelgina og láta þannig gott af sér leiða, brjóstanna vegna.

Styrktarfélagið Göngum saman

Styrktarfélagið Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini og úthlutar styrkjum í október ár hvert. Félagið var stofnað haustið 2007 og hefur frá stofnun veitt íslenskum rannsóknaraðilum á sviði brjóstakrabbameins um 22 milljónir króna í styrki. Göngum saman leggur áherslu á miklvægi hreyfingar til heilsueflingar og til að afla fjár í styrktarsjóð félagsins.

Mæðradagsganga Göngum saman sunnudaginn 12. maí

Göngum saman efnir til vorgöngu fyrir alla fjölskylduna víða um land á mæðradaginn, sunnudaginn 12. maí.  Gengið verður á 14 stöðum um allt land: Borgarnes, Stykkishólmur, Patreksfjörður, Ísafjörður, Blönduós, Siglufjörður, Akureyri, Egilsstaðir, Reyðarfjörður, Höfn, Vestmannaeyjar, Selfoss, Reykjanesbær og Reykjavík. Tímasetningar og nánari upplýsingar um hvern stað er að finna á heimasíðunni www.gongumsaman.is