Fréttasafn13. maí 2013

Ölgerðin skrifar undir Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur skrifað undir Global Compact - sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Í því felst skuldbinding til að framfylgja tíu viðmiðum um samfélagsábyrgð. Þau viðmið snúa að mannréttindum, starfsmannamálum, umhverfi og aðgerðum gegn spillingu. Árlega verður gefin út skýrsla um framgang þeirra viðmiða ásamt ítarlegu samfélagsábyrgðarverkefni Ölgerðarinnar.

Að sögn Svanhildar Sigurðardóttur hjá Ölgerðinni hefur verið unnið að því undanfarin ár að marka félaginu skýra stefnu í samfélagsábyrgð. „Í þeirri vinnu varð fljótt ljóst að helstu snertifletir yrðu umhverfið, samfélagið, markaðurinn og fyrirtækið. Breiður hópur starfsfólks Ölgerðarinnar hefur með endurtekinni hópavinnu tekið saman þau atriði sem samfélagsábyrgð fyrirtækisins tekur til."

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Ölgerðarinnar var ákveðið að ráðast í 100 verkefni. „Þetta er umfangsmikið verkefni í framleiðslufyrirtæki eins og Ölgerðinni en starfsfólk er áhugasamt að flétta hvert verkefni við daglegan rekstur fyrirtækisins."

Hér að neðan má lesa stutta samantekt fyrirtækisins um áherslur Ölgerðarinnar í samfélagsmálum.

Ölgerðin af ábyrgð (PDF)

Global Compact er eitt öflugasta framtakið í heiminum á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja og sjálfbærni. Sameinuðu þjóðirnar hleyptu verkefninu af stokkunum í júlí árið 2000. Meira en sjö þúsund fyrirtæki hafa skrifað undir Global Compact í heiminum en alls hafa yfir 10.000 aðilar hafa skrifað undir sáttmálann í 145 löndum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér það markmið að 20 þúsund fyrirtæki hafi skrifað undir sáttmálann árið 2020 með það að markmiði að auka sjálfbærni efnahagslífs heimsins. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact.